Vísindaráð Almannavarna fundaði í morgun um eldgosið á Reykjanesskaga. Farið var yfir nýjustu gögn og mælingar til að meta stöðuna og framhald gossins. Er það mat vísindamanna að framgangur gossins er eins og við mátti búast. Gosvirknin hefur haldist nokkuð stöðug síðustu daga og er mikilvægt að undirbúa sig undir að gosið standi yfir í nokkuð langan tíma.
Á gervihnattamyndum sem sýna landbreytingar á Reykjanesskaga frá lok júlí má sjá merki um aflögun skammt norðaustur af Grindavík (Sjá svartan kassa á mynd hér að neðan). Aflögunin sem sést á gervihnattamyndunum er við upptök skjálftans sem varð 31. júlí og mældist M5.5. Á fundi vísindaráðs var farið yfir önnur gögn frá svæðinu s.s. GPS mælingar, skjálftagögn og sýna þau engar vísbendingar um að kvika sé þarna á ferðinni og líklegast skýringin sé breytingar á yfirborði sem urðu í skjálftanum fyrir um 10 dögum síðan. Engu að síður munu vísindamenn safna frekari gögnum til að staðfesta ennfrekar að svo sé. Rætt var að mikilægt væri að auka vöktun enn frekar á þeim umbrotasvæðum sem geta haft áhrif nærri byggð með því að setja upp fleiri mælitæki til rauntímavöktunar.