Í dag laugardaginn 24. október er haldin flugslysaæfing á Hornafjarðarflugvelli þar sem æfð eru viðbrögð við flugslysi við flugvöllinn. Æfingin hófst klukkan 10:00 í morgun þegar líkt var eftir að flugvél með 20 manns um borð brotlendir við suðurenda flugbrautarinnar og margir slasaðir. Mikilvægt er að tryggja skipuleg viðbrögð við flugslysinu og að þolendum flugslyssins berist öll nauðsynleg aðstoð á sem skemmstum tíma. Unnið er eftir flugslysaáætlun Hornafjarðarflugvallar, sem segir til um skipulag og stjórnun aðgerða við flugslysi, en áætlunin er unnin af almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og Isavia í samvinnu við lögreglustjórann á Suðurlandi og viðbragðsaðila.
Á annað hundrað manns taka þátt í æfingunni m.a. lögreglan, slökkvilið, Rauði krossinn, Landspítali háskólasjúkrahús, Landhelgisgæslan, Slysavarnafélagið Landsbjörg, Neyðarlínan og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra ásamt ráðgjöfum og leikurum. TF- Líf þyrla Landhelgisgæslunnar er á staðnum og tekur þátt í æfingunni. Samhæfingarstöðin í Skógarhlíð hefur verið virkjuð og aðstoðar vettvang í aðgerðinni.
Einn helsti tilgangur æfingarinnar er að láta reyna á áreiðanleika flugslysaáætlunar Hornafjarðaflugvölls með því að leiða saman þá viðbragðsaðila sem hafa hlutverk í áætluninni og síðan nýta þá reynslu sem fæst í æfingunni til að bæta áætlunina. Reynslan og lærdómur af flugslysaæfingunni nýtist einnig í annars konar hópslysum.
Sjá nánari upplýsingar á Facebooksíðu almannavarnadeildarinnar https://www.facebook.com/Almannavarnir