Um klukkan níu í kvöld bárust tilkynningar um mögulegt eldgos á Reykjanesi. Lögregla og björgunarsveitir voru kallaðar út og fóru á vettvang til að staðfesta hvort gos væri hafið og hófust strax handa við að loka leiðum að svæðinu. Þegar staðfest var að gos væri hafið var almannavarnastig hækkað upp á neyðarstig. Nú hefur verið staðfest að gos hófst klukkan 20:45 í Geldingadal suður af Fagradalsfjalli. Samhæfingastöð og aðgerðarstjórn á Suðurnesjum hafa verið virkjaðar.
Umferð á Reykjanesbraut fór að þyngjast hratt um leið og fréttir fóru að berast af gosinu og var lokað fyrir umferð um tíma.
Tilkynningar hafa borist frá viðbragðsaðilum á svæðinu um illa búið fólk á gangi í átt að gosstöðvunum. Almannavarnir mælast eindregið með því að fólk haldi sig fjarri svæðinu á meðan vísindafólk eru að meta stöðuna. Eins og staðan er núna er enginn heppilegur útssýnisstaður á svæðinu í kringum gossvæðið. Almannavarnir biðla til fólks að hafa í huga að þetta svæði er varhugavert, bæði vegna loftmengunar frá gosi og þess að landslagið getur verið erfitt yfirferðar.
Vísindafólk flaug með þyrlu Landhelgisgæslunnar yfir gosstöðvarnar fyrir miðnætti til að meta aðstæður og staðsetja gosið. Í fluginu náðu þau að staðsetja það, mæla gossprunguna og meta í hvaða átt hraunið rennur.
Af öryggisástæðum er drónaflug bannað yfir gossvæðinu til hádegis 20. mars. Vegna vísindaflugs gæti þurft að loka fyrir flug og drónaflug með stuttum fyrirvara næstu daga.
Ákveðið var að rýma Krísuvíkurskóla og var því fjöldahjálparstöð opnuð í Grindavík á vegum Rauða krossins.
Gasmengun
Búast má við gasmengun í Þorlákshöfn í kvöld og nótt. Fólk er beðið að halda sig inni og loka gluggum. Verið er að meta stöðuna og mögulegt magn SO2 losunar frá eldgosinu.
Hætta getur skapast í lægðum í landslagi fyrir þá sem fara nærri gosstöðvum og því er fólki bent á að vera ekki á svæðinu. Upp úr miðnætti fóru vísindamenn inn á svæðið til að mæla gasmengun og vænta má niðurstöðu frá þeim í nótt.
Almannavarnir og Veðurstofa Íslands boða til upplýsingafundar á morgun kl 11:00 í Katrínartúni.