Ef gýs á Reykjanesi

//English below// Polski poniże//

Hvernig gosi má búast við?
Eldgos á Reykjanesi eru yfirleitt sprungugos á landi (hraungos) sem vara í nokkra daga eða vikur. Stundum koma vísbendingar stuttu áður en eldgos hefst, en það er ekki alltaf. Sprungugosum af þessu tagi fylgir hraunrennsli og eiturgas getur einnig komið upp. Hraunið rennur hægt, miðað er við gönguhraða, og ef það kemur upp fjarri íbúabyggð þá tekur töluverðan tíma að renna til byggðar ef það nær þangað yfirhöfuð.

Hraun og aska
Í slíkum sprungugosum koma lítil til meðalstór hraun og óverulegur vikur og aska, sem þó geta valdið óþægindum og hættu ef gosið er í stærra lagi. Gosmökkur getur myndast þegar vatnsgufa sameinast eldfjallagasi. Aska sem kemur úr gosi af þessu tagi er óveruleg og ekki það mikil að hún t.d. byrgi fólki sýn. Þetta gerist á öllu tímabilinu samanlagt og getur tekið marga daga.

Hvað þú getur gert til að verja þig gegn ösku?
Dragðu úr ösku innanhúss
• Hafðu allar dyr og glugga lokaða hvenær sem þess er kostur.
Hlífðu augum
• Ef askan er fíngerð skal ganga með hlífðargleraugu eða sjóngleraugu í stað augnlinsa til að hlífa augunum við ertingu.
Takmarkaðu akstur
• Strax eftir öskufall, jafnvel lítið öskufall, geta akstursaðstæður, skyggni og loftgæði versnað verulega, sérstaklega þegar umferð þyrlar öskunni aftur upp. Rigning hefur skyndileg en tímabundin bætandi áhrif á loftgæði þangað til askan þornar aftur. Við mælum með að þú forðist akstur og haldir þig innandyra í kjölfar öskufalls ef þess er kostur. Ef þú verður að aka skaltu halda löngu bili á milli þín og næsta ökutækis á undan og aka hægt.

Varúðarráðstafanir vegna barna
Börnum stafar sama hætta af svifösku og öðrum aldurshópum en áhrifin á þau geta orðið meiri vegna þess að þau eru minni vexti og ekki eins líkleg til að grípa til eðlilegra og skynsamlegra ráðstafana til að forðast snertingu við gosösku að nauðsynjalausu. Þó að allt bendi til þess að inntaka lítils magns af ösku sé ekki hættuleg mælum við með að gerðar séu eftirfarandi varúðarráðstafanir:
• Haldið börnum innandyra eins og kostur er.
• Börn eiga að forðast mikla áreynslu við leiki og hlaup meðan askan svífur í loftinu því að áreynsla veldur hraðari andardrætti og smáar agnir dragast dýpra niður í lungun.
• Gætið þess sérstaklega að koma í veg fyrir að börn leiki sér á svæðum þar sem eru djúp öskulög eða askan hefur dregist í skafla.

Loftmengun
Gas sem kemur upp með gosi getur verið hættulegt í miklu magni. Í minna magni getur það valdið óþægindum s.s. sviða í augum og öndunarfærum. Viðkvæmir einstaklingar, þ.á m. fólk með hjarta- og lungasjúkdóma og börn, ættu að vera sem minnst úti við þegar styrkur gass fer yfir hættumörk. Ungabörn ættu því ekki að sofa utandyra í slíkum aðstæðum.
Almennar ráðleggingar vegna loftmengunar
• Lungna og hjartasjúklingar hafi sín lyf tiltæk
• Andið sem mest með nefi og forðast líkamlega áreynslu utandyra í mikill mengun því það dregur úr SO2 sem kemst niður í lungu.
• Dvöl innanhúss með lokaða glugga og slökkt á loftræstingu veitir verulega vörn fyrir menguninni.
Svona gos eru annars eðlis en gos undir jökli eða vatni/sjó þar sem mikið öskufall fylgir, en mjög ólíklegt er að slík gos verði á svæðinu.

Hvað þýðir þetta fyrir almenning?
Allir þeir sem búa í nálægð við eldgos ættu að fylgjast vel með fjölmiðlum og tilkynningum sem berast varðandi gasmengun, en þær upplýsingar eru uppfærðar a.m.k. tvisvar dag hvern í samræmi við veðurspá.

Viðbrögð
Eldgos á því svæði sem nú er talið líklegast er fjarri byggð og kallar ekki á skjót viðbrögð íbúa. Það sem mikilvægast er fyrir fólk á svæðinu er að halda ró sinni og fylgjast með fréttum, sérstaklega hvað varðar loftmengun og öskufall.
Fólk ætti að forðast að fara í skoðunarferðir nærri eldgosasvæðinu