Breytt fyrirkomulag næstu daga í Grindavík. Skráning á island.is

Samkvæmt hættumatskorti sem Veðurstofa Íslands birti í gær þá eru auknar líkur á eldgosi við Grindavík, einnig kom fram að fyrirvarinn gæti orðið styttri en áður. Í síðasta eldgosi var fyrirvarinn fimm klukkustundir og í eldgosinu sem hófst 18. desember milli Stóra-Skógfells og Sundhnúks var fyrirvarinn um 90 mínútur.

Við þessar fregnir er ljóst að Grindvíkingum getur þótt biðin eftir eignavitjun óbærileg og hafa Almannavarnir því gripið til ráðstafana sem miða að því að allir Grindvíkingar fái aðgang að íbúðarhúsnæðum sínum sem fyrst.  

Skipulaginu hefur því verið breytt og er nú miðað við að nk. sunnudag og mánudag verði öllum íbúum Grindavíkur veittur aðgangur að íbúðarhúsnæðum sínum í um 6 klukkustundir.
Að þessu loknu verður farið aftur í áður mótaða áætlun þar sem íbúar fá vonandi lengri aðgang.  
Sjá tímaáætlun

Við þessar breytingar er þörf á upplýsingum frá íbúum til að mögulegt sé að skipuleggja allar framkvæmdir í aðgerðinni. Því eru íbúar beðnir um að skrá sig sérstaklega aftur í gegnum rafrænt Ísland.is.
Skráningarfrestur er til morguns, laugardagurinn 3. febrúar klukkan 17:00 og er nauðsynlegt að skrá sig vegna þessara tveggja daga.

Svæðishólfin eru áfram þau sömu en tímahólfin verða eftirfarandi:

Sunnudagur kl 08:00 – 14:00:
V1 – V4 – G2 – H1 – H5 – I2 – A2 – A3 – B1 

Sunnudagur kl 15:00 – 21:00:
G4 – V5 – L5 – H3 – H7 – I3 – S3 

Mánudagur kl 08:00 – 14:00:
V2 – L2 – G5 – L4 – H4 – I4 

Mánudagur 15:00-21:00:
L1 – V3 – G1 – H6 – I1 – H2

Eins og sést á tímahólfum mun hluti aðgerða fara fram eftir að myrkur skellur á og hvetjum við því fólk til að vera með höfuð- eða vasaljós ef ske kynni að rafmagnsbilun sé í þeirra svæðishólfi.
Kort og svæðaskipting er hægt að sjá á þessu korti.   


Breytt akstursfyrirkomulag

Aðkoma að Grindavík verður bæði um Suðurstrandarveg og Nesveg en ekið er frá Grindavík um Norðurljósaveg inn á Grindavíkurveg.

Ökutæki 

Þau ökutæki sem eru heimilaðar á þessum tveimur dögum eru ökutæki.sem krefjast stærri meiraprófs. Þó þarf sérstaka heimild til notkunar á gámaflutningabifreiðum. Ekki er hámark á fjölda ökutækja og biðlum við til skynsemi hvað það varðar. Það má nýta sama flutningabílinn til að flytja verðmæti/búslóð úr fleiri en einu húsi. 

Húslyklar í slökkvistöð Grindavíkur
Þau sem ætla að sækja lykla sína í slökkvistöðina:  Mælst er til þess að tölvupóstur sé sendur þess efnis á slokk@grindavik.is. Með því að senda tölvupóst er hægt að koma í veg fyrir að bíða í röð eftir að fá lykilinn afhentan. Íbúar eru beðnir um að senda hvenær þeir koma ásamt heimilisfangi. 

Lyftur
Ef lyfta er í húsinu – ekki nota hana. Það er ekki talið öruggt.Ferlið við komu inn í Grindavík 
Keyra beint að húsi leggja fyrir utan húsið og vera inni eins mikið og hægt er. Ekki er ætlast til að íbúar fari um bæinn. Grindavík er í heild eins og hættulegt vinnusvæði. Víða eru opnir skurðir þar sem unnið er að viðgerðum og mikið af sprungum sem ekki er búið að loka en reynt hefur verið að girða af. 

Eftirlit og gæsla 
Frá því jarðhræringar hófust í nóvember hafa drónar verða nýttir til að tryggja að viðbragðsaðilar hafi góða yfirsýn yfir bæinn. Drónaeftirliti verður haldið áfram sem lögregla og björgunarsveitir sjá um. 
Ef til rýmingar kemur verður það gert með hljóðmerkjum og sms skilaboðum.