Ríkislögreglustjóri vinnur að því að koma á fót bakvarðasveit lögreglunnar.
Í ljósi stöðunnar í kjölfar heimsfaraldurs Covid-19 er ljóst að útbreiðsla veirunnar gæti orðið til þess að valda erfiðleikum við að manna stöður á vissum starfstöðvum. Við slíkar aðstæður er brýnt að tryggja þjónustu lögreglunnar við borgarana. Því hefur verið ákveðið að stofna bakvarðasveit lögreglunnar þar sem einstaklingar sem uppfylla skilyrði til starfa geta skráð sig á lista hafi þeir tök á að ráða sig tímabundið, hvort sem er í fullt starf eða hlutastarf.
Óskað er eftir fólki sem lokið hefur prófi frá Lögregluskóla ríkisins eða diplómaprófi í lögreglufræðum ásamt starfsnámi á vegum lögreglunnar sbr. 28.gr lögreglulaga nr. 90/1990 og uppfyllir önnur skilyrði til starfa sbr. 29.gr.a sömu laga. Vakin er athygli á því að samkvæmt 28. gr. a. er lögreglu heimilt að afla upplýsinga úr sakaskrá og málaskrám lögreglu til þess að staðreyna hvort umsækjendur uppfylli skilyrði til ráðningar.
Nánari upplýsingar um bakvarðasveitina og skráningu á hana er hægt að fá hjá ríkislögreglustjóra í póstfanginu bakverdir@logreglan.is eða í síma 444-2593. Eingöngu er tekið við skráningum í útfylltu skráningarformi.
Um skráningu í bakvarðasveit lögreglunnar
Ríkislögreglustjóri hefur útbúið skráningarform á vefsvæði lögreglunnar fyrir þá sem eru reiðubúnir að skrá sig í bakvarðasveitina. Fólki gefst kostur á að skrá sig í hlutastarf eða fullt starf allt eftir því hvað hentar viðkomandi. Laun eru í samræmi við kjarasamning Landsambands lögreglumanna við ríkissjóð.
Nánari upplýsingar um fyrirkomulag ráðninga:
Hæfnisskilyrði: Leitað er að einstaklingum sem hafa próf og réttindi til að starfa sem lögreglumenn. Það þýðir að leitað er að einstaklingum sem eru á aldursbilinu 20-65 ára. Leitað er að lögreglumönnum sem horfið hafa til annara starfa en eru reiðubúnir að koma tímabundið til starfa með skömmum fyrirvara.
Tímabil: Leitað er að fólki sem getur skuldbundið sig til starfa í allt að tvo mánuði, hvort sem það er í fullt starf eða hlutastarf.
Réttindi þeirra sem ráða sig til starfa: Laun verða greidd samkvæmt kjarasamningi Landsambands lögreglumanna við ríkissjóð. Orlofsréttindi verða greidd út jafnóðum. Veikindaréttur starfsfólks sem ráðið er skemur en tvo mánuði er í samræmi við ákvæði kjarasamnings. Tryggingar starfsfólks eru í samræmi við ákvæði kjarasamnings.
Hvernig verður staðið að ráðningum: Þeir lögreglustjórar sem óska eftir að ráða starfsfólk úr bakvarðarsveit lögreglunnar nálgast upplýsingar um liðsauka hjá ríkislögreglustjóra. Lögreglustjórar munu sjálfar hafa samband við bakverði og ráðningarsambandið verður á milli einstaklingsins og viðeigandi lögreglustjóra.