Auknar líkur á eldgosi á Sundhnúksgígjaröðinni. Hættustig Almannavarna.

Ríkislögreglustjóri í samráði við lögreglustjórann á Suðurnesjum hefur ákveðið að fara á hættustig Almannavarna þar sem líkur á nýju eldgosi á Sundhnúksgígjaröðinni hefur aukist.

Á vef Veðurstofunnar kemur fram að magn kviku sem safnast hefur undir Svartsengi nálgast það magn sem fór þaðan í síðasta eldgosi.  Jarðskjálftavirkni á Sundhnúksgígaröðinni hefur aukist hægt frá goslokum 9. desember 2024 en virknin er enn lítil. Þróunin síðasta árið sýnir að jarðskjálftavirkni fyrir kvikuhlaup hefur farið minnkandi með hverjum atburði. Því er möguleiki á að jarðskjálftavirkni verði ekki mikil fyrir næsta eldgos.

Atburðarrásin heldur því áfram á svipaðan hátt og fyrir síðustu gos.
 
Vegna þessa hefur Veðurstofan ákveðið að uppfæra hættumat sitt sem gildir til 11. febrúar, að öllu óbreyttu. Í hættumatinu var hættustig á svæði 4 og 6 í breytt úr „nokkur“ hætta (gult) yfir í „töluverða“ hættu (appelsínugult).  Svæði 4 er með töluverða hættu, þar sem töluverð hætta er vegna jarðfalls ofan í sprungur, sprunguhreyfinga, hraunflæðis og gasmengunar. Rétt er að taka fram að svæði 4 nær samkvæmt svæðisskiptingu Veðurstofunnar nokkuð út fyrir þéttbýli Grindavíkur, sér í lagi til austurs. Því er innan þess svæðis talsvert landsvæði sem hefur ekki verið áhættumetið á sama hátt og þéttbýlið.

Einnig er vert að benda á að samkvæmt veðurspá Veðurstofunnar er von á umhleypingum, sunnan stormi með afgerandi hlýindum, rigningu og súld á sunnan- og vestanverðu landinu þegar líður á vikuna og um helgina. Slæm veðurspá gæti dregið úr næmni mælanetsins og þannig stytt viðbragðstíma vegna eldgoss.

Fram kemur í tilkynningu frá lögreglustjóranum á Suðurnesjum að hver og einn verður að bera ábyrgð á eigin athöfnum eða athafnaleysi.  Það sama gildir um ferðamenn.  Hættur eru nú taldar töluverðar af áhrifum eldgoss í Grindavík.  Vont veður og slæm færð dregur úr öryggi fólks inn á hættusvæðum jafnframt því að hafa áhrif á vöktunargetu Veðurstofu Íslands.

Áhættumat sem unnið er fyrir Framkvæmdarnefnd vegna jarðhræringa í Grindavíkurbæ og Almannavarnasvið ríkislögreglustjóra hefur einnig tekið breytingum. Miðað við núverandi áhættumat frá 29. janúar er nú er talið að áhætta á þéttbýlissvæði Grindavíkur sé há fyrir alla aðila sem þýðir að varnir gegn hættum séu til staðar en talsverð óvissa ríkir í einstaka þáttum. Fólki er ráðið frá því að vera á ferðinni í Grindavík að nauðsynjalausu.

Í Grindavík er áhætta há fyrir alla hópa, bæði að nóttu sem degi. Á Svartsengissvæðinu er áhætta talin há, bæði að nóttu sem degi. Á gos-/sprengisvæði er áhættan hins vegar óásættanleg fyrir viðbragðsaðila, ráðgjafa og verktaka, ytri aðila og ferðafólk. Mælt er gegn því að óviðkomandi fari inn á gos- og sprengisvæði.