Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur tekið ákvörðun um að hleypa fleira fólki inn í Grindavík. Ef fólk er með lögheimili í bænum getur það farið inn og þarf það einungis að segja hvar það býr og hvert það er að fara og þá verður því hleypt inn á svæðið. Tveir mega vera í hverjum bíl og fólk er beðið um að taka eins stuttan tíma í verkið og hægt er.
Fólk er bara hleypt inn í dagsbirtu og svæðið verður rýmt á ný fyrir myrkur.
Unnið er að því að setja upp kerfi til að fólk geti gefið öðrum umboð til að fara inn fyrir sig ef það er fjarverandi og kemst ekki til að sækja eigur sínar. Það næst að öllum líkindum ekki að setja það upp í dag, en ef fólk þekkir einhvern sem er að fara inn á svæðið er hægt að fá þann aðila til að fara fyrir sig.
Búið er að setja upp keilur þar sem skemmdir eru á vegum í bænum. Fólk er beðið um að hlusta eftir hljóðmerkjum sem viðbragðsaðilar kunna að gefa og virða skilaboð þeirra.
Tilkynning frá Lögreglustjóranum á Suðurnesjum:
Lögreglan á Suðurnesjum hefur tekið ákvörðun um að hleypa öllum íbúum Grindavíkur inn núna.
Takmark 2 í hverri bifreið og biðjum alla um að taka eins stuttan tíma og hægt er. Getum bara unnið dagsbirtu.
Viðbragsaðilar hafa merkt þar sem skemmdir eru í vegum í bænum með keilum. Íbúar verða hlusta eftir hljóðmerkjum ef viðbragðsaðilar gefa slík merki og virða slíkt.
Eingöngu ein flóttaleið er inn og út úr bænum um Suðurstrandarveg.