Eldgosið sem hófst í Geldingadölum 19. mars hefur nú staðið viðstöðulaust í nær þrjá mánuði. Á þeim tíma hefur gosið skipt um takt nokkrum sinnum. Nýir gígar opnast og lokast, hraunrennslið aukist og samsetningu þess breyst.
Engir mikilvægir innviðir eru beint við gosstöðvarnar sjálfar en Suðurstrandavegur og ljósleiðari eru sunnan við gosstöðvarnar. Ljóst var að þeir innviðir gætu verið í hættu ef gosið héldi áfram. Vegna þessa var gripið til mótvægisaðgerða með því að setja upp varnarvegg ofan við Nátthaga. Sú aðgerð fólst í því að tefja framgang hraunsins og seinka því að það kæmist að Suðurstrandarvegi. Á þeim tíma jókst hraunflæðið frá gosinu um 100% og mikið magn af hrauni kom að görðunum. Viku síðar fór hraun að renna yfir vestari garðinn og nokkru síðar þann eystri. Þrátt fyrir það standa báðir garðarnir enn og er það merki um að sú hönnun virki vel við þessar aðstæður.
Núverandi hættumat gerir ráð fyrir því að um langtímaatburð sé að ræða og að gosið muni halda áfram í mánuði eða ár. Miðað við það er ljóst að enn fleiri innviðir geta verið í hættu. Er þá sérstaklega verið að horfa til svæðisins út frá Nátthagakrika. Hermanir gefa til kynna að þaðan geti verið leið fyrir hraunið til norðurs, vesturs og suðurs.
Frekari varnargarðar hafa verið til skoðunar í Nátthaga og hefur þá verið horft til þess að safna upp hrauni í dalnum og veita því ákveðna leið til sjávar. Töluvert stór mannvirki þyrfti til þess að ná árangri og ljóst að það mun bara halda í ákveðinn tíma. Miðað við umfang framkvæmda og óvissu um árangur var ákveðið að aðhafast ekki frekar á þessu svæði. Áherslur varðandi frekar mótvægisaðgerðir munu því beinast að Nátthagakrika.
Nú þegar hefur verið reistur leiðigarður sunnan við Geldingadali í þeim tilgangi að bæja hraunrennsli frá Nátthagakrika. Á sama tíma verður farið í að skoða útfærslur varðandi frekari mótvægisaðgerðir vegna mikilvægra innviða sem geta verið í hættu.