- Reykjanesið af hættustigi niður á óvissustig
- Norðurland Vestra af óvissustigi upp á hættustig
- Bann við opnum eld
Síðasta sólarhringinn hefur verið skúraveður víða SV lands. Eftir stöðufund viðbragðsaðila og Veðurstofunnar er niðurstaðan sú að hætta á gróðureldum sé enn að mestu óbreytt. Það er byggt á fyrirliggjandi veðurspá og þeirri staðreynd að víðast hefur úrkoman ekki náð langt niður í jarðveginn og hann áfram þurr.
Samkvæmt veðurspá eru NA áttir framundan með áframhaldandi þurkum.Hættustig almannavarna verður því áfram í gildi á þeim svæðum sem það náði til eða frá Breiðafirði að Eyjafjöllum.
Það er aðeins á Reykjanesi sem úrkoman hefur verið að einhverju ráði og mun það svæði færast niður á óvissustig.
Úrkoman hefur ekki náð inn á NV-land og því mun það svæði færast af óvissustigi upp á hættustig.
Bann við opnum eld
Samhliða hættustigi almannavarna hafa allir slökkviliðsstjórar á Norðurlandi Vestra tekið þá sameiginlegu ákvörðun að banna meðferð opins elds vegna þurrkatíðar sem nú geysar. Slökkviliðsstjórar hafa sammælst um að slíkt bann sé nauðsynlegt þar sem mikil eldhætta getur skapast af litlum neista.
Bann þetta er í samræmi við reglugerð nr. 325/2016 um meðferð elds og varnir gegn gróðureldum.
26. gr.
Afturköllun leyfis.
Sýslumanni er heimilt að afturkalla leyfi sem veitt eru skv. reglugerð þessari ef skilyrðum í leyfi er ekki fylgt eða ef upp koma þær aðstæður að hætta er talin geta stafað af leyfðri brennu.
Slökkviliðsstjóri getur stöðvað leyfða sinubrennu, eða að kveikt sé í bálkesti, og bannað meðferð opins elds sé það talið viðsjárvert vegna veðurs eða af öðrum öryggisástæðum.
Bann þetta tekur gildi frá og með deginum í dag (14.5.2021) og tekur til þess landsvæðis sem hættustigið nær yfir. Bannið gildir þar til tilkynning um afléttingu er send út. Brot varða sektum.
Almenningur og sumarhúsaeigendur á skilgreindum svæðum eru hvattir til að:
- Ekki kveikja eld innan sem utandyra (kamínur, grill, varðeldar, flugeldar og fleira)
- Ekki nota einnota grill sem og venjuleg grill
- Kanna flóttaleiðir við sumarhús
- Huga að brunavörnum (slökkvitæki, reykskynjarar) og gera flóttaáætlun
- Ekki vinna með verkfæri sem hitna mikið eða valda neista
- Fjarlæga eldfim efni við hús (huga að staðsetningu gaskúta)
- Bleyta í gróðri kringum hús þar sem þurrt er
Hægt er að kynna sér betur hættur vegna gróðurelda:
https://www.almannavarnir.is/natturuva/eldhaetta/
Ef fólk verður vart við gróðurelda á strax að hringja í 112.