Aflýsing óvissustigs vegna hættu á gróðureldum á vesturlandi

Ríkislögreglustjóri, í samráði við Lögreglustjórann á Vesturlandi, hefur ákveðið að aflýsa óvissustigi almannavarna vegna hættu á gróðureldum á Vesturlandi. Þessi ákvörðun er byggð á því að rignt hefur víðast hvar á Vesturlandi undanfarið og næstu daga er spáð úrkomu af og til víðast hvar. Það er mat lögreglunnar á Vesturlandi að telja megi að ástand sé að verða svipað og í venjulegu tíðarfari.

Óvissustigi vegna hættu á gróðureldum á Vesturlandi var lýst yfir 11. júní síðastliðinn vegna langvarandi þurrka.

Óvissustig almannavarna þýðir að aukið eftirlit er haft með atburðarás sem á síðari stigum gæti leitt til þess að heilsu og öryggi fólks, umhverfis eða byggðar verði ógnað. Að lýsa yfir óvissustigi er hluti af verkferlum í skipulagi almannavarna til að tryggja formleg samskipti og upplýsingagjöf á milli viðbragðsaðila og almennings.

Þótt óvissustigi hafi nú verið aflýst hvetja viðbragðsaðilar eftir sem áður til að aðgát sé höfð í meðferð opins elds og eldunartækja þar sem mikill gróður er.

Á heimasíðu almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra (www.almannavarnir.is) má nálgast upplýsingar um ýmsar varnir til að draga úr hættu af gróðureldum https://www.almannavarnir.is/natturuva/eldhaetta/ og einnig inn á https://www.grodureldar.is/