Aflýsa óvissustigi vegna jökulhlaups úr Grímsvötnum

Ríkislögreglustjóri,  í samráði við Lögreglustjórann á Suðurlandi, aflýsir óvissustigi Almannavarna vegna jökulhlaups úr Grímsvötnum.

Fram kemur á vef Veðurstofunnar að órói sem mældist á jarðskjálftamælinum á Grímsfjalli og vatnshæð í Gígjukvísl hafa aftur náð svipuðum gildum og voru fyrir hlaup. Þar með er Grímsvatnahlaupinu, sem hófst fyrir um það bil 10 dögum, lokið. Skjálftavirkni í Grímsvötnum jókst ekki á meðan hlaupinu stóð en nokkrir skjálftar undir M2 mældust í síðustu viku.