Ríkislögreglustjóri í samráði við lögreglustjórann á Suðurnesjum hefur ákveðið að færa almannavarnastig af hættustigi á óvissustig vegna eldgossins austur af Stóra Skógfelli, sem er lokið.
Fyrr í dag flaug starfsmaður Almannavarnasviðs dróna yfir eldstöðvarnar, á þeim myndum sést að engin virkni er sjáanleg í gígnum. Eldgosið sem hófst 20. nóvember sl. stóð yfir í 18 daga og var annað stærsta gosið að flatarmáli á Sundhnúksgígaröðinni, af sjö eldgosum frá desember 2023.
Á vef Veðurstofu Íslands kemur fram að það eru skýr merki um að landris sé hafið á ný á Svartsengissvæðinu.