Í dag eru liðin 45 ár frá upphafi eldgossins á Heimaey. Verkefnin sem það leiddi af sér voru mjög lærdómsrík fyrir almannavarnir á Íslandi. Eldgosið var frumraun almannavarnakerfisins og þar var fyrst beitt í stórri aðgerð því neyðaráætlanaskipulagi sem unnið hafði verið að að koma á í almannavörnum frá því á árinu 1971.
Fyrsta neyðaráætlun þessarar gerðar var tilbúin í ársbyrjun 1972 og var unnin fyrir Húsavíkurkaupstað. Sama ár voru unnar neyðaráætlanir fyrir Ísafjarðarkaupstað og viðbragðsáætlun vegna eldgoss í Kötlu í Mýrdalsjökli. Teknir voru til umfjöllunar í þessum neyðaráætlunum allir helstu hættuþættir, sem ógnað gætu öryggi hins almenna borgara á viðkomandi svæði og settar fram nákvæmar leiðbeiningar um virkjun neyðarþjónustunnar með tilheyrandi gátlistum.
Eldgosið í Heimaey árið 1973 reyndi verulega á almannavarnastarfið á Íslandi. Það undirstrikaði nauðsyn almannavarnaskipulagsins, bæði hvað varðaði brottflutning eyjaskeggja, móttöku þeirra á fastalandið og varnaraðgerðir meðan gosið stóð.
Neyðaráætlanir almannavarna eru í sífelldri endurskoðun bæði vegna breyttra aðstæðna og breytinga í samfélaginu. Þá bætast sífellt nýjar séráætlanir vegna tiltekinna atburða við í safn séráætlana almannavarna. Þann 23. janúar á síðasta ári var einmitt gefin út Viðbragðsáætlun vegna eldgoss í Vestmannaeyjum sem unnin var í samvinnu lögreglustjórans og almannavarnanefndar í Vestmannaeyjum og almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra. Áætlunina má nálgast undir liðnum útgefið efni hér á vefnum.