Áföll geta haft varanleg áhrif og mikið tilfinningalegt álag. Þau eru gjarnan tengd reynslu eða upplifun á alvarlegum atburði. Mikilvægt er að sækja sér aðstoð sem fyrst, til að vinna úr áfallinu og koma í veg fyrir alvarlegri vanda vegna áfallsins í framtíðinni. Flestir sem fá faglega aðstoð eftir áfall ná sér eftir ákveðinn tíma. Ef ekki er að gáð getur áfallið leitt til áfallastreitu. Áfallastreituviðbrögð geta verið eðlileg líkamleg, hugræn og tilfinningaleg viðbrögð við óeðlilegum kringumstæðum. Verði einkennin hins vegar viðvarandi standa ýmis úrræði til boða.
Bráðaþjónusta áfallahjálpar er veitt á Landspítala. Sóknarprestar sinna einnig áfallahjálp. Þá er hægt að leita til sálfræðinga og geðlækna á einkastofum.
Hjálparsími Rauða krossins er 1717. Þar er hægt að fá góð ráð, upplýsingar, stuðning og hvatningu.
Rauði krossinn hefur umsjón með áfallahjálp í skipulagi almannavarna á Íslandi samkvæmt samkomulagi frá 2012.
Biskupsstofa, Landlæknir, Landspítalinn, Rauði krossinn á Íslandi, Ríkislögreglustjóri almannavarnadeild og Samband íslenskra sveitarfélaga skipa fulltrúa í samráðshóp um áfallahjálp í Samhæfingarstöðinni sem starfar á landsvísu.
Hlutverk samráðshóps í Samhæfingarstöðinni er m.a.:
- að móta stefnu og gæta þess að besta þekking og úrlausnir á sviði áfallahjálpar endurspeglist í skipulagi áfallahjálpar á hverjum tíma.
- vera ráðgefandi fyrir yfirvöld og samráðshópa í umdæmum lögreglunnar á öllum tímum.
- að útbúa sérstaka gátlista um verklag fyrir samráðshópa í lögregluumdæmum.
- að vinna áætlun á hættu- og neyðartímum um hvernig áfallaþjónusta færist frá Rauða krossinum til annarra aðila þegar neyðaraðgerðum lýkur eða eftir því sem aðgerðum vindur fram.
- gera viðkomandi stofnunum og félögum sem eiga fulltrúa í samráðshópnum grein fyrir vinnu hópsins á hverjum tíma.
Samráðshópar áfallahjálpar í umdæmum lögreglustjóra
Í hverju umdæmi eru samráðshópar, einn eða fleiri, um áfallahjálp skipaðir fulltrúum frá Rauða krossinum á Íslandi, heilbrigðisstofnun í umdæmi, sveitarfélagi í undæminu (félagsþjónustu), kirkjunni og lögreglu í viðkomandi umdæmi.
Hlutverk samráðshópa í umdæmum lögreglustjóra:
- að stuðla að því að besta þekking og úrlausnir á sviði áfallahjálpar séu til staðar í umdæminu á hverjum tíma.
- vera ráðgefandi fyrir yfirvöld og stofnanir á viðkomandi svæði á öllum tímum.
- að vinna áætlun á hættu- og neyðartímum um hvernig áfallaþjónustan færist frá Rauða krossinum til annarra aðila þegar neyðaraðgerðum lýkur eða eftir því sem aðgerðum vindur fram.
- að fylgja eftir verklagi samkvæmt gátlistum sem unnir eru af samráðshópi áfallahjálpar á landsvísu.
- gera viðkomandi stofnunum og félögum sem eiga fulltrúa í samráðshópnum grein fyrir vinnu hópsins á hverjum tíma.