Ísland hefur starfað innan Atlantshafsbandalagsins frá stofnun bandalagsins 1949. Starfsemi NATO hefur þróast síðustu árin frá því að vera eingöngu hernaðarbandalag í það að sinna friðargæslu, baráttu gegn hryðjuverkum ásamt því að vinna að samvinnu ríkja í varnar- og öryggismálum.
Í almannavörnum hefur NATO í auknum mæli þróað samhæft neyðaraðstoðarkerfi. Árið 1998 var Samhæfingar- og viðbragðsmiðstöð (EADRCC) stofnuð af Evró-Atlantshafssamstarfsráðinu (EAPC) til að samhæfa neyðaraðstoð á Atlantshafssvæðinu. Í tengslum við stöðina geta aðildarríkin beðið um úrræði komi til hamfara eða stóráfalla, samkvæmt samkomulagi sem ríkin hafa gert með sér.
Með CEP (Civil Emergency Planning) var meiri áhersla lögð á úrræði og aðstoð með óbreytta borgara í fararbroddi og hefur NATO unnið að málefnum sem varða hamfarir, stórslys og hættu, vegna náttúruvár og ýmissa váverka af mannavöldum. Markmiðið er að vernda samfélagið, stjórnvöld, almenning og eignir þeirra.