Náttúruhamfarir verða oft án fyrirvara. Til að bregðast sem best við þeim skaða sem náttúruhamfarir geta haft í för með sér, þurfa allir fyrirfram að undirbúa viðbrögð sín vegna þeirra. Almannavarnir – eru á allra ábyrgð. Mikilvægt er að vera vel undirbúin og kynna sér viðbrögð og viðbúnað við þeim vám sem geta verið í næsta nágrenni.
Liður í mótvægis- og áhættuminnkandi aðgerðum felst í því að fara yfir heimili og vinnustað og athuga hvort nauðsynlegur öryggis- og neyðarbúnaður er til staðar, sem gott getur verið að hafa til taks ef hamfarir verða. Margir safna slíkum öryggisbúnaði í neyðar- eða viðlagakassa þar sem geymdir eru hlutir sem koma sér vel í hamförum.
Búnaður í neyðarkassa getur verið:
Vel útbúinn sjúkrakassi og skrá yfir lyf heimilismanna, vasaljós og útvarp með rafhlöðu (eða sjálfhlaðandi), bæklingur um skyndihjálp, auka rafhlaða/hleðsla fyrir farsíma, hleðslutæki sem hægt er að nota í bifreið, minnislykill með mikilvægum skjölum og ljósmyndum (hafa afrit á netinu t.d. í skýi), flauta, upptakari, þurrmatur (pasta, súpur, kex), niðursuðuvara, vatn, eldhúsrúllur, rykgrímur, eldspýtur, kerti, stór plastpoki, eitthvað reiðufé, auka bíllyklar, húslyklar, föt, svo og ýmsar sérþarfir fjölskyldumeðlima t.d. fyrir börn og gæludýr.
Athugið að útbúa neyðarkassa eftir þörfum heimilismanna.
Einnig er mikilvægt að hafa útprentaða skrá yfir helstu símanúmer fjölskyldu og stofnana í sveitarfélaginu, lyfjaskrá auk þess sem upplagt er að setja í viðbragðsáætlun fjölskyldunnar/vinnustaðarins í öryggis- og neyðarkassanum. Góð verkfæri eru einnig nauðsynleg í slíkum kassa (hamar, kúbein, skófla) svo og límbandsrúlla.
Venjulegur útilegubúnaður getur komið sér vel þegar yfirgefa þarf heimilið, oft í flýti vegna hamfara, og auðvelt að grípa með s.s svefnpokar, teppi, hlý föt (ullarnærföt) og góðir skór, vatnsflöskur, snyrtidót, niðursoðinn/þurrmatur, pakkamatur, kveikjari, upptakari, ásamt pottum og prímusum. Einnig spil, púsl og önnur afþreying, sérstaklega fyrir börnin.
Minni útgáfu af slíkum neyðarkassa má geyma í bifreið og hafa í honum teppi, vatn, orkustykki með geymsluþol, sjúkrakassa með sætisbeltaklippum, litla skóflu, vasaljós, flautu, eldspýtur og kerti í áldós. Einnig er ráðlagt að hafa slökkvitæki, kaðal, frostlög og startkapla.
Athugið! Kynnið ykkur hvar skrúfað er fyrir vatn og hvernig rafmagn er tekið af húsinu/íbúðinni. Munið að síminn er öryggistæki í neyðarástandi. Þegar vara þarf við neyð eru SMS neyðarskilaboð send frá Almannavörnum í farsíma og er miðað er við það svæði þar sem hættuástand getur skapast.