Aðgerðastjórn á Húsavík hefur ákveðið að opna Hólsfjallaveg (864) austan Jökulsárgljúfurs frá þjóðvegi 1 að vegi 85. Einnig hefur vegurinn inn í Ásbyrgi verið opnaður, þar sem áður var lokað. Dettifossvegur vestan Jökulárgljúfurs (862) er enn lokaður.
Hér fyrir neðan má sjá kort Vegagerðarinnar af svæðinu sem hefur verið lokað. Rétt er að taka fram að lokanir byggjast á því að hætta er talin á eldgosi undir Vatnajökli, hvort sem það væri undir Dyngjujökli eða í sjálfri Bárðarbungu. Slíku gosi mun fylgja jökulflóð. Gosið bræðir jökulinn og óhemju magn af vatni flæðir þá undan honum. Þessa atburðarás þekkja Íslendingar vel og skemmst er að minnast þess er Gjálp gaus í Vatnajökli árið 1996 en því gosi fylgdi gríðarlegt hlaup niður Skeiðarársand. Lokanir á hálendinu eru miðaðar við slíkan atburð. Þar er tekið tillit til þess hve langur fyrirvari væri á slíkum atburðum og því hve langan tíma það muni taka viðbragðsaðila að koma boðum til þeirra sem væru á svæðinu um hvað væri í vændum og að koma þeim í skjól. Slíkt verkefni verður ekki unnið á örskotsstundu og því betra að hafa vaðið fyrir neðan sig eins og alltaf þegar mannslíf eru í húfi.
Einnig má finna kortið á vef Vegagerðarinnar.