Fundi vísindamannaráðs Almannavarna sitja vísindamenn frá Veðurstofu Íslands og Jarðvísindastofnun Háskólans ásamt fulltrúum frá Almannavarnardeild ríkislögreglustjóra. Fundinn sátu jafnframt Sóttvarnarlæknir og fulltrúi Umhverfisstofnunar.
Á fundi vísindamannaráðs í morgun kom eftirfarandi fram:
Ekki dregur úr gosinu í Holuhrauni. Samkvæmt athugunum á vettvangi er gosvirkni svipuð og undanfarna daga. Hraun rennur til austurs, lítill hluti þess breiðir úr sér til norðurs en megintungan rennur áfram í farveg Jökulsár á Fjöllum og áin flæmist til austurs undan hrauninu. Ekki er sprengivirkni þar sem hraunið rennur í ána en gufubólstrar stíga til himins.
Loftgæði í byggð:
Spár gefa til kynna að hár styrkur brennisteinsgasa gæti orðið á norðanverðum Austfjörðum, Fljótsdal, Héraði, Jökuldal og Vopnafirði. Svæði með háum styrk gæti orðið stærra. Ef fólk finnur fyrir óþægindum er mælt með að halda sig innandyra, loka gluggum og slökkva á loftræstingu. Hægt er að fylgjast með mælingum á loftgæðum á síðunni loftgæði.is. Veðurstofan birtir viðvaranir eftir því sem aðstæður breytast á vedur.is.
Tilmæli og leiðbeiningar frá Sóttvarnalækni og Umhverfisstofnun má finna á heimasíðum stofnananna.
Loftgæði á gossvæðinu:
Mikið gasstreymi er í og í kringum eldstöðina. Bráð lífshætta stafar af gasinu og ekki er óhætt að nálgast svæðið án gasmæla og gasgríma. Við gosstöðvarnar má búast við sífelldum staðbundnum breytingum á vindátt, vegna hitauppstreymis, sem gera aðstæður þar mjög hættulegar.
Jarðskjálftavirkni í öskju Bárðarbungu breytist lítið frá degi til dags. Skjálftarnir dreifast einkum um norður- og suðausturhuta öskjumisgengisins. Skjálfti af stærðinni 5,3 varð klukkan 00:07. Dregið hefur nokkuð úr skjálftum við norðurenda kvikugangsins. Rúmlega 30 skjálftar hafa mælst frá miðnætti. Órói virðist vera svipaður og undanfarna daga.
GPS mælingar sýna óverulegar jarðskorpuhreyfingar þannig að kvikustreymi inn í ganginn virðist haldast svipað og útstreymi í gosinu í Holuhrauni. Þegar litið er yfir tímabilið frá því gos hófst má hins vegar greina hreyfingar í átt að Bárðarbungu sem benda til áframhaldandi sigs í öskjunni.
Þrír möguleikar eru taldir áfram líklegastir um framvindu:
- Öskjusig í Bárðarbungu hættir áður en það verður mikið og gosið í Holuhrauni fjarar út.
- Stórt öskjusig í Bárðarbungu. Gos í Holuhrauni verður langvinnt eða vex. Mögulegt að sprungan lengist til suðurs inn undir Dyngjujökul og valdi jökulhlaupum og gjóskufalli. Einnig er mögulegt að sprungur opnist annar staðar undir jöklinum.
- Stórt öskjusig í Bárðarbungu og gos í öskjubroti. Slíkt gos gæti brætt mikinn ís og valdið verulegu jökulhlaupi.
Ekki er hægt að útiloka aðrar sviðsmyndir.
Frá Veðurstofu Íslands:
Litakóði fyrir flug er áfram appelsínugulur fyrir Bárðarbungu en kóða fyrir Öskju hefur verið breytt í grænt.