Vísindamannaráð almannavarna kom saman til fundar í morgun, mánudaginn 8. desember, eins og það gerir reglulega þrisvar í viku. Á fundinum í morgun var farið yfir þær sviðsmyndir sem taldar eru líklegastar um framvindu eldgossins, en eins og glöggir lesendur hafa tekið eftir þá ályktaði Vísindamannaráð að líklegast héldi gosið áfram í einhverja mánuði, að því gefnu að framvinda þess verði í samræmi við framgang þess undanfarna mánuði. Gosið hófst þann 31. ágúst og því verða 100 dagar frá því að það hófst á morgun, þriðjudaginn 9. desember.
Hér fyrir neðan eru helstu áherslupunktar Vísindamannaráðs frá því í morgun auk sviðsmyndanna þriggja. Neðst er svo mynd frá evrópsku geimferðarstofnuninni sem tekin var 5. desember. Myndin, sem unnin var af Jarðvísindastofnun HÍ, sýnir að hraunbreiðan er nú 76,2 ferkílómetrar að stærð.
Áherslupunktar:
- Eldgosið í Holuhrauni heldur áfram með líkum hætti og verið hefur síðustu vikur. Á morgun, þriðjudag 9. desember, verða liðnir 100 dagar frá upphafi þess.
- Jarðskjálftavirkni í Bárðarbungu er enn öflug. Stærsti skjálftinn frá hádegi á föstudag mældist M5,1 á föstudag, 5. desember, kl 21:05. Um 20 skjálftar á milli M4,0-5,0 mældust á tímabilinu og 10 skjálftar á milli M3,0-4,0. Alls mældust um 300 skjálftar við Bárðarbungu frá því á hádegi á föstudag.
- Lítil jarðskjálftavirkni mældist við bergganginn og gosstöðvarnar í Holuhrauni frá hádegi á föstudag.
- GPS mælingar sýna engar breytingar. Land heldur áfram að síga í átt að Bárðarbungu með svipuðum hraða og verið hefur.
- Enn hefur ekki tekist að koma á sambandi við GPS stöðina í öskju Bárðarbungu. Ólíklegt er að veður leyfi ferð á Bárðarbungu á næstu dögum en reynt verður að koma á sambandi við stöðina við fyrsta tækifæri.
Sviðsmyndir:
Gosið hefur staðið í rúmlega þrjá mánuði, enn er mikið hraunflæði í Holuhrauni og sighraði öskju Bárðarbungu verulegur. Þrír möguleikar eru taldir líklegastir um framvinduna:
- Gosið í Holuhrauni heldur áfram þar til öskjusig í Bárðarbungu hættir. Gosið getur varað í marga mánuði enn.
- Gosvirkni færist til suðurs undir Dyngjujökul og veldur jökulhlaupum og gjóskufalli. Einnig er mögulegt að sprungur opnist annars staðar undir jöklinum. Ef slíkt gos yrði langvinnt gæti það breyst í hraungos.
- Gos í öskju Bárðarbungu. Slíkt gos gæti brætt mikinn ís og valdið verulegu jökulhlaupi. Öskufall gæti orðið nokkurt.
Ekki er hægt að útiloka aðrar sviðsmyndir.