Í lögum um almannavarnir nr. 82/2008 er gerð grein fyrir skipulagi almannavarna í landinu.
Ríkislögreglustjóri annast málefni almannavarna í umboði dómsmálaráðherra, sem er æðsti yfirmaður almannavarna í landinu. Í almannavarnadeild ríkislögreglustjóra fer fram samhæfing og eftirlit á málefnum almannavarna á landsvísu og alþjóðasamstarf.
Við embætti ríkislögreglustjóra er starfrækt Samhæfingarstöð, sem lýtur sérstakri stjórn. Stjórnin tekur ákvarðanir um innra skipulag, rekstur og samstarf viðbragðsaðila í stöðinni og er samhæfing eða framkvæmd aðgerða ekki á verksviði stjórnar. Í áhöfn Samhæfingarstöðvar eru fulltrúar viðbragðsaðila Almannavarna.
Stjórn aðgerða í almannavarnaástandi er í höndum lögreglustjóra í viðkomandi lögregluumdæmi.
Ríkislögreglustjóra er heimilt að stofna tímabundna þjónustumiðstöð, vegna hættu sem er yfirvofandi eða yfirstaðin. Markmiðið er að veita almenningi á skaðasvæði nauðsynlega aðstoð á einum stað s.s. áfallahjálp, upplýsingar og ráðgjöf.