Óvissustig (Uncertainty Phase):
Óvissustig einkennist af atburðarás sem er hafin og ætla má að geti leitt til þess að öryggi fólks og/eða byggðar sé stefnt í hættu. Á þessu stigi hefst samráð milli almannavarna og þeirra stofnana sem málið varðar. Athuganir, rannsóknir, vöktun og mat er aukið. Atburðurinn er skilgreindur og hættumat framkvæmt reglulega til að meta stöðuna hverju sinni.
Um óvissustig er að ræða, dæmi:
- Þegar afla þarf upplýsinga um fólk sem óvissa ríkir um.
- Þegar skip, loftfar eða fólk hafa ekki komið fram á ákvörðunarstað eða ekkert heyrst frá þeim í tiltekinn tíma.
- Þar sem óvissa ríkir um öryggi skips eða loftfars og þeirra sem í því eru.
- Þegar grunur vaknar um að eitthvað sé að gerast af náttúru- eða mannavöldum sem á síðari stigum gæti leitt til þess að heilsu og öryggi fólks, umhverfis eða byggðar sé ógnað.
- Þegar sóttvarnaryfirvöld meta þörf á að hefja undirbúning að viðbúnaði vegna farsótta samkvæmt ráðleggingum Alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar (WHO).