Framkvæmdanefnd um málefni Grindavíkur hefur samkvæmt samnefndum lögum stjórn, skipulag og framkvæmd tiltekinna verkefna tengd málefnum Grindavíkur. Þannig er nefndin m.a. ábyrg fyrir gerð áhættumats fyrir þéttbýli í Grindavík, í samvinnu við ríkislögreglustjóra. Áhættumat er heildarferli sem felur í sér að greina og lýsa áhættu. Í því felst að ákvarða umfang og eðli áhættu og/eða áhættuþátta og samanburður á niðurstöðum við áhættuviðmið til að ákvarða hvort áhættan sé óásættanleg. Framkvæmdanefnd um málefni Grindavíkur hefur fengið Örugg verkfræðistofu til að gera áhættumatið sem var afhent Framkvæmdanefndinni og Ríkislögreglustjóra í dag, 22. nóvember 2024.
Í áhættumatinu segir að samspil hættuþátta, fólksfjölda, viðbragða, forvarna og innviða hafi áhrif á loka áhættustigið. Fólksfjöldi í Grindavík og ágengi ferðamanna inn á hættuleg svæði kunni að hafa áhrif á áhættuna, bæði vegna beinna áhrifa á viðkomandi fólk, en einnig vegna áhættu tengdri björgun og áhrifa á önnur störf sem t.d. ekki væri hægt að sinna með sama hætti samhliða björgunarstarfi. Viðbragðsaðilar verði að geta sinnt atvikum í samræmi við skyldur.
Aukinn fólksfjöldi auki líkur á atburðum, gerir björgunarstarf mögulega flóknara, eykur rýmingartíma, eykur afleiðingar vegna annarrar hættu o.s.frv. Þannig gæti t.d. mikil gasmengun haft auknar afleiðingar í för með sér vegna umferðarslyss eða eldsvoða í Grindavík.