Alvarlegt rútuslys varð um sex kílómetra vestan við Kirkjubæjarklaustur um ellefuleytið í morgun. Rúta með um 50 farþega lenti utan vegar og valt. Nokkrir eru alvarlega slasaðir, margir með minniháttar áverka. Farþegarnir eru erlendir ferðamenn. Aðgerðarstjórn á Suðurlandi hefur virkjuð í Björgunarmiðstöðinni við Árveg á Selfossi og að auki hefur Samhæfingastöðin í Skógarhlíð verið virkjuð. Þá hefur fjöldahjálparstöð verið opnuð á Kirkjubæjarklaustri.
Allt tiltækt lið viðbragðsaðila á svæðinu hefur verið kallað á vettvang. Tvær þyrlur Landhelgisgæslunnar, TF-SYN og TF-LIF, eru nú á leið þangað. Búist er við að þær lendi þá og þegar. Landspítalinn hefur verið settur á aukið viðbragð og sjúkrastofnanir víða um land eru í viðbragðsstöðu.
Þjóðvegi nr. 1 hefur verið lokað við Kirkjubæjarklaustur og verður svo á meðan unnið er að björgun á vettvangi. Búast má við straumi sjúkrabíla og annarra viðbragðsaðila og eru vegfarendur beðnir um að sýna tillitsemi og þolinmæði á meðan. Unnið er að því að koma á hjáleið um Meðallandsveg 204.