Fréttatilkynningar   

30.05.2011
Almannavarnastigi vegna eldgoss í Grímsvötnum aflétt

Í ljósi þess að vísindamenn telja að eldgosið í Grímsvötnum sé nú lokið, hefur ríkislögreglustjórinn í samráði við lögreglustjórana á Eskifirði og á Hvolsvelli ákveðið að aflétta almannavarnastigum vegna eldgossins.

Framundan er mikil vinna við hreinsun og uppbyggingu á svæðinu, sem verst varð úti í öskufallinu. Miðstöð þeirrar vinnu verður í þjónustumiðstöð almannavarna

Þjónustumiðstöðin í grunnskólanum á Kirkjubæjarklaustri verður opin frá klukkan 10:00 - 13:00. Meginverkefni hennar er að sinna eftirmálum eldgossins í Grímsvötnum, sem snúa að íbúum, sveitarfélögum og uppbyggingarstarfi.

Hægt er að ná sambandi við fulltrúa þjónustumiðstöðvarinnar í síma 847 5715 og með tölvupósti í netfangið adstod.klaustur@gmail.com

Hægt að ná sambandi við fulltrúa þjónustumiðstöðvarinnar í ofangreindu símanúmeri utan viðverutíma.

29.05.2011
Þjónustumiðstöð almannavarna á Kirkjubæjarklaustri
Þjónustumiðstöð almannavarna á Kirkjubæjarklaustri tók til starfa s.l. föstudag. Meginverkefni hennar er að sinna eftirmálum eldgossins í Grímsvötnum sem snúa að íbúum, sveitarfélögum og uppbyggingarstarfi.

Þjónustumiðstöðin er staðsett í grunnskólanum á Klaustri og er opin öllum þeim sem þurfa aðstoð eða upplýsingar vegna eldgossins. Þjónustumiðstöðin verður virk eins lengi og þurfa þykir en frá og með mánudeginum 30. maí verður viðvera frá kl.10:00-13:00.

Hægt er að ná sambandi við fulltrúa þjónustumiðstöðvarinnar í síma 847 5715 og með tölvupósti í netfangið adstod.klaustur@gmail.com

Hægt að ná sambandi við fulltrúa þjónustumiðstöðvarinnar í ofangreindu símanúmeri utan viðverutíma

 

27.05.2011
Fréttatilkynning frá Samhæfingarstöðinni 27.05.2011.
Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands minnkaði órói, sem fram kemur á jarðskjálftamælum á Grímsfjalli verulega í gær og í nótt. Ekki mælast jarðskjálftar í eldstöðinni. Viðbúnaður almannavarna hefur verið lækkaður niður á hættustig, en almannavarnastig eru flokkuð eftir alvarleika, umfangi viðbúnaðar og þörf á forgangshraða viðbragðsaðila samanber reglugerð nr 650/2009 um flokkun almannavarnastiga.

Unnið er af fullum krafti við uppbyggingar- og hreinsunarstarf á áhrifasvæði eldgossins og í dag var opnuð þjónustumiðstöð almannavarna í grunnskólanum á Kirkjubæjarklaustri. Meginverkefni þjónustumiðstöðvarinnar er að aðstoða íbúa við þrif á nánasta umhverfi. Vettvangsstjórn á Kirkjubæjarklaustri lýkur störfum í dag og verkefnin færð yfir í þjónustumiðstöðina.

Í gærkvöldi var fjölmennur íbúafundur haldinn í félagsheimilinu á Kirkubæjarklaustri. Vísindamenn og fulltrúar stofnana s.s. Jarðvísindastofnunar, Veðurstofu Íslands og Umhverfisstofnunar, fóru yfir þróun eldgossins í Grímsvötnum, afleiðingar þess og stöðuna í dag. Auk þess voru fulltrúar almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, Viðlagatryggingar Íslands, Bjargráðasjóðs og lögreglustjóri umdæmisins á fundinum og svöruðu spurningum íbúa.
Viðlagatrygging Íslands tekur við tilkynningum vegna allra skemmda sem verða af völdum gossins óháð því hvort tjónið falli undir bótaábyrgð Viðlagatryggingar eða ekki. Tilkynningar vegna tjóna sem falla utan bótaábyrgðar Viðlagatryggingar eru áframsendar til Þjónustumiðstöðvar almannavarna/Samhæfingarstöðvar. Heimasíða Viðlagatryggingar Íslands er http://www.vidlagatrygging.is/.

Þann 24. maí fór hópur matsmanna á vegum almannavarnardeildar ríkislögreglustjóra í vettvangskönnun um svæðið sem hefur orðið fyrir mestum áhrifum frá eldgosinu. Markmiðið með ferðinni var að leggja fyrsta mat á aðstæður og gera tillögur að áframhaldandi aðgerðum. Í dag 27. maí skilaði hópurinn stöðumati eftir vettvangskönnun til ríkisstjórnarinnar
Stöðumatið má finna á heimasíðu almannavarnadeildarinnar eða með því að smella hér.

Ríkislögreglustjórinn almannavarnadeild/fréttatilkynning

 

26.05.2011
Lækkun viðbúnaðar vegna eldgossins í Grímsvötnum
Ríkislögreglustjóri hefur í samráði við lögreglustjórana á Hvolsvelli og Eskifirði ákveðið að færa viðbúnað almannavarna vegna eldgossins í Grímsvötnum af neyðarstigi niður á hættustig.

25.05.2011
Íbúafundur í félagsheimilinu á Kirkjubæjarklaustri
Íbúafundur verður haldinn í félagsheimilinu á Kirkubæjarklaustri fimmtudaginn 26. maí 2011 kl.20:30. Farið verður yfir þróun eldgossins í Grímsvötnum, afleiðingar þess og stöðuna í dag.
Fulltrúar frá eftirtöldum stofnunum verða á staðnum til að svara fyrirspurnum frá íbúum:

• Lögreglustjóranum á Hvolsvelli
• Skaftárhreppi
• Heilbrigðisstofnun Suðurlands
• Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra
• Rauða kross Íslands
• Jarðvísindastofnun
• Veðurstofunni
• Bjargráðasjóði
• Viðlagatryggingu
• Heilbrigðiseftirliti Suðurlands
• Búnaðarsambandi Suðurlands
• Matvælastofnun
• Landgræðslunni
• Umhverfisstofnun

 

25.05.2011
Tilkynning frá Matvælastofnun.
Matvælastofnun mælir með að bændur meti aðstæður og setji búfé út ef mögulegt er. Þó er mikilvægt að hafa það á svæði þar sem auðvelt er að hafa eftirlit með því og smala því saman ef á þarf að halda. Jafnframt þarf að tryggja því aðgang að hreinu drykkjarvatni, góðu fóðri, salti og steinefnum.

Lítið hefur verið um dauða eða veikindi í búfé. Askan veldur þó særindum í augum og þörf getur verið á að hreinsa augun, gott er að nota úðabrúsa til að úða vatni á augun.

Rannsóknir sem gerðar hafa verið á efnainnihaldi í ösku og vatni benda til að flúorstyrkur sé lítill. Búnaðarsamband Suðurlands og Landbúnaðarháskóli Íslands eru við sýnatökur í dag af ösku og gróðri og niðurstöður rannsókna á þeim er að vænta í næstu viku.
Sérgreinadýralæknir sauðfjár- og nautgripasjúkdóma hjá Matvælastofnun fer í dag ásamt ráðunauti frá Búnaðarsambandi Suðurlands og heimsækir bændur ásamt héraðsdýralækni.

 

25.05.2011
Gos í rénun-TF-SIF flýgur með vísindamenn yfir gosstöðvarnar
Að sögn lögreglu var nóttin róleg í nágrenni gosstöðvanna og virðist gosið í rénun. Lögreglan varar við ferðum að gosstöðinni því ennþá kemur sprengjuvirknin í hviðum og öflugar sprengingar inn á milli. Er fólk beðið um að fara ekki nær gosstöðinni en að skála Jöklarannsóknafélagsins sem er í um 6 km. fjarlægð.
Björgunarsveitarmenn hafa farið á milli bæja á svæðinu og meta með íbúum áhrif gossins og það sem er framundan við hreinsunar og uppbyggingarstörf.
Á fundi vísindamanna í Skógarhlíð í morgun kom fram að gosórói hefur farið minnkandi og ekki lengur samfelldur gosmökkur. Í morgun var gosmökkurinn hvítur og nokkuð sakleysislegur. Ekki búist við miklu öskufoki. Gjóskuframleiðsla er óveruleg og er að mestu um að ræða gjóskufok á sunnanverðum jöklinum.
Flugvél Landhelgisgæslunnar TF-SIF er nú í flugi með vísindamönnum og verða upplýsingar úr fluginu sendar til fjölmiðla að því loknu.
Að sögn sérfræðinga veðurstofunnar mældist kl. ~21:00 í gærkvöldi strókur í um 7 km hæð og þá mældust 2 eldingar.
kl. 02:10-02:30 þá kom strókur sem mældist upp í 12 km hæð á radar og 12 eldingar mældust.
kl. 03:30 mældist púff í 5 km hæð á radar sem er talinn hafa verið gufustrókur.
Síðan þá hefur ekkert mælst á radar og sjónarvottar á svæðinu (m.a. Ármann Höskuldsson) upplýstu um að komið hafi litlir strókar upp í 100-300 m hæð, sem eru mest megnis gufustrókar, en ösku megi þó sjá öðru hvoru.  Strókar sem fara upp í þessa hæð, hafa ekki áhrif á flugumferð, einungis á nær umhverfis sitt. Gosóróinn minnkaði mjög mikið upp úr 21:15 í ca. 30 mín.  Uppúr kl. 02:00 féll hann afur niður og hefur verið mun minni síðan. Ekki er hægt að útiloka að öflugri ösku strókar geti komið fyrirvaralaust.

24.05.2011
Opnun þjóðvegar milli Víkur og Freysnes
Vegna breyttra aðstæðna verður þjóðvegurinn milli Víkur og Freysnes opnaður kl.19:00 í kvöld.

Verið er að senda tæki á staðinn til að hreinsa sandskafla sem hafa myndast á veginum. Opnunin er með þeim fyrirvara að aðstæður geta breyst þannig að loka þurfi veginum aftur.

Skyggni á leiðinni getu víða verið lélegt og vegfarendur eru beðnir að sýna varkárni og að vera ekki á ferðinni að nauðsynjalausu

24.05.2011
Mælingar á neysluvatni.
Á fimmtudaginn 26. maí næstkomandi mun heilbrigðisfulltrúi vera í fjöldahjálparstöðinni á Kirkjubæjarklaustri og meta neysluvatn. Hægt er að koma með neysluvatn til rannsóknar í félagsheimilið á morgun og fyrripart fimmtudags.

Mælt verður fyrir leiðni og sýrustigi í vatninu og út frá þeim mælingum metið hvort gera þurfi frekari aðkallandi mælingar.Íbúar Skaftárhrepps, sem ekki eru á samveitu Kirkjubæjarklausturs, eru sérstaklega hvattir til að notfæra sér þetta.

Neysluvatnssýni er hægt að taka í vel skolaða 1/2 lítra gosflösku, merkja nafni, símanúmeri og sýnatökustað(heimilisfangi). Ef ekki er hægt að skila inn sýnum á fjöldahjálparstöðina er hægt að óska sérstaklega eftir að sýni verði tekin hjá viðkomandi. Hægt er að senda slíka beiðni til Heilbrigðiseftirlitsins á netfangið hs@sudurland.is eða í síma 4808220

Allar frekari upplýsingar veitir Heilbrigðiseftirlit Suðurlands.

http://www.heilbrigdiseftirlitid.is/2011/05/maelingar-a-neysluvatni/

24.05.2011
Fréttatilkynning frá Samhæfingarstöðinni klukkan 11:30
Samkvæmt upplýsingum frá vísindamönnum hefur gosmökkurinn frá Grímsvötnum verið mun lægri í nótt en hann var í gær og nær nú 3-5 km. hæð. Áætlað er með að TF-SIF flugvél Landhelgisgæslunnar fari í flug síðar í dag en nú er unnið að því að gera hana klára en varahlutur sem beðið var eftir kom til landsins í gærkvöldi. Verða vísindamenn með í fluginu og munu eldstöðvarnar verða kortlagðar með radar- og eftirlitsbúnaði flugvélarinnar. Frá því að gosið hófst hefur Landhelgisgæslan útvegað radargögn frá ratsjárstöðinni Stokksnesi sem nýst hafa vel við útreikninga á hæð gosstróksins og önnur umbrot sem eiga sér stað á svæðinu.

Áfram er búist við öskufalli víða SA-lands í dag. Segir Halldór Björnsson veðurfræðingur að gosmökkurinn sé nú vart sjáanlegur á gervitunglamyndum vegna veðuraðstæðna, en sjá má lágskýja öskuský sunnan af landinu. Útlit er fyrir að askan muni nú berast suður af landinu og verða í lægri hæðum. Útlit er fyrir að gjóskuframleiðslan sé nú mun minni úr gígnum en undanfarna daga. Hins vegar hafi gríðarlegt magn af ösku fallið á landið og sé ennþá í háloftunum. Öskufallsmælingar má sjá á síðunni http://kort.vista.is/ Sjá nánar á vef Veðurstofu Íslands og www.vedur.is og Umhverfisstofnunar www.ust.is . Íbúum svæðisins er bent á að kynna sér öskufallsbækling, sem hægt er að nálgast á heimasíðu almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra www.almannavarnir.is .
Vegurinn frá Vík að Freysnesi er enn lokaður af öryggisástæðum vegna öskunnar.

Samráðshópur um áfallahjálp hefur verið með hópa í fjöldahjálparstöðvum á Klaustri, í Vík, Höfn og Hvolsvelli. Hefur gengið ágætlega hjá þeim og er ró og yfirvegun í störfum þeirra. Nokkrir íbúar hafa ákveðið að fara tímabundið í burtu. Þrír læknar eru nú staðsettir á Klaustri og er kirkjan er að skipuleggja aðstoð og stuðning við presta á svæðinu. Bent er á hjálparsíma Rauða krossins 1717 sem er upplýsingasími fyrir almenning til að til að nálgast almennar upplýsingar og sækja sér sálrænan stuðning.

Samkvæmt upplýsingum frá Landsneti hafa engar truflanir orðið á raforkuframleiðslu, raforkuflutningi eða dreifingu vegna eldgossins í Grímsvötnum. Gripið hefur verið til ýmissa ráðstafana til að draga úr líkum á því að truflanir á raforkuflutningskerfinu valdi skaða hjá notendum. Hið sama má segja um önnur veitufyrirtæki sem sinna raforkuframleiðslu eða dreifingu á því svæði sem orðið hefur fyrir öskufalli. Neyðarstjórnir fyrirtækjanna fylgjast náið með ástandinu, eru í reglulegu sambandi við starfsmenn sína á svæðinu. Vefmyndavél Mílu við Jökulsárlón er á slóðinni http://live.mila.is/jokulsarlon/

24.05.2011
Fréttatilkynning frá Samhæfingarstöðinni klukkan  8:00
Vegurinn frá Vík í Mýrdal að Freysnesi er ennþá lokaður en um kl. 09:00 verður tekin ákvörðun um framhaldið en björgunarsveitarmenn eru nú á leiðinni á staðinn þar sem farið verður um svæðið og bæirnir heimsóttir. Nóttin var annars róleg. Ekki er annað vitað en að gosið sé stöðugt en nánari fréttir frá vísindamönnum berast þegar líður á morguninn.

Áfram er búist við öskufalli víða SA-lands í dag. Minnkandi norðan- og norðvestanátt í dag, él norðaustantil en léttir til S- og V-lands. Norðvestan 3-10 og bjartviðri síðdegis, en hvassara austast. Hiti 2 til 12 stig að deginum, hlýjast SA-lands. Í gær kl. 18:00 hafði gosstrókurinn haldið 3-6 km hæð en vegna veðurfræðilegra aðstæðna hefur hann lækkað talsvert. Ekki voru eldingar í stróknum.

Leiðbeiningar til íbúa á öskufallssvæðum ef aska fer að berast inn í hús.
• Leggja rakar tuskur við glugga og hurðir
• Hækka hita á ofnum inni
• Setja vatnsskálar á ofna til að hækka rakastig
• Þétta glugga með límbandi

Íbúum á öskufallssvæðum er bent á frekari leiðbeiningar um viðbrögð við öskufalli sem finna má á heimasíðum Almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, Landlæknis, Umhverfisstofnunar og Umhverfis- og samgöngusviðs Reykjavíkurborgar.

Tenglar og nánari upplýsingar

Almannavarnir www.almannavarnir.is
Landlæknir http://landlaeknir.is/
Umhverfistofnun www.ust.is
Loftgæðamælingar í Reykjavík: http://www.loft.rvk.is/
Loftgæði í Reykjavík: www.umhverfissvid.is (vefmælir)


23.05.2011
Hvasst undir Eyjafjöllum
Talsvert öskufall hefur verið í dag, suður og suðvestur af Vatnajökli. Þá hefur mikið sandfok verið undir Eyjafjöllum á köflum nú undir kvöld, hvasst og miklir strengir. Öskumistur hefur verið víða landinu, en öskumökkurinn hefur verið í 3 - 6 km. hæð í dag. Hægt er að fylgjast með svifryki á nokkrum stöðum á landinu á vefsíðunni http://kort.vista.is/ og fyrir Reykjavík á www.reykjavik.is
Vegurinn frá Vík í Mýrdal að Freysnesi er ennþá lokaður af öryggisástæðum, en þar hefur verið dimmt og lítið skyggni í dag, sérstaklega í nágrenni við Kirkjubæjarklaustur. Almannavarnayfirvöld á Klaustri hafa verið í sambandi við íbúana þar og á bæjunum þar í kring og hugað að fólki. Íbúafundur var í dag í Hofgarði í Öræfum.
Björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar hafa aðstoðað við að flytja fólk innan svæðisins í dag. Þá hafa birgðir af vatni í neysluumbúðum hafa verið sendar austur.

22.05.2011
Öskumistur á sunnanverðu landinu
Öskufall hefur verið víða á Suðurlandi í dag, frá Öræfum og vestur í Ölfus. Búið er að dreifa rykgrímum og hlífðargleraugum á þeim svæðum þar sem mesta öskufallið hefur orðið. Samkvæmt upplýsingum Umhverfisstofnunar mun svifryksmælir verða fluttur frá Akureyri og settur upp á Kirkjubæjarklaustri mánudaginn 23. maí. Frekari ákvarðanir um mælingar verða teknar á mánudag. Upplýsingum um loftgæðamælingar á svæðinu verður komið á framfæri um leið og þær liggja fyrir.

Öskumistur hefur verið að færast vestur yfir Suðurlandið seinnipartinn í dag og mun fara yfir suðvesturhornið og höfuðborgarsvæðið í kvöld eða nótt. Hægt er að fylgjast með loftgæðum í Reykjavík á heimasíðu Reykjavíkurborgar

Í fyrramálið snýst vindur til stífrar norðanáttar um allt land og má þá gera ráð fyrir að mistrið berist á haf út.

Þegar skyggni er orðið fáir kílómetrar vegna ösku og klukkustundarmeðaltal svifryks fer yfir 400 µg/m3 er rétt að hafa eftirfarandi í huga:

  • Ekki er nauðsynlegt fyrir fullfrískt fólk að nota grímu þegar farið er á milli staða, s.s. út í búð eða þess háttar
  • Forðast langvarandi útiveru
  • Íþróttaiðkun og útivist sem felur í sér áreynslu, s.s. trimm og erfiðar gönguferðir, getur valdið óþægindum í öndunarfærum
  • Stjórnendur íþróttaviðburða ættu að íhuga frestun móta við þessar aðstæður, sérstaklega þegar börn eiga í hlut.
  • Þeir sem nauðsynlega þurfa að dvelja langdvölum úti við ættu að íhuga að nota grímur
  • Ekki er mælt með langvarandi útiveru barna né að ungbörn sofi úti í vagn

Ákveðinn hópur fólks er viðkvæmari fyrir svifryki en aðrir, t.d. fólk með hjarta- og lungnasjúkdóma. Viðkvæmustu einstaklingar þess hóps geta fundið fyrir auknum einkennum frá sínum sjúkdómum við mun lægri styrki, jafnvel niður fyrir 100 µg/m3. Sjá nánar um skyggni miðað við styrk svifryks á vef Umhverfisstofnunar, www.ust.is.

 

22.05.2011
Mikilvægt að huga að skepnunum á gossvæðinu
Enn er mikið öskufall frá eldgosinu í Grímsvötnum og leggur mökkinn yfir byggðirnar sunnan og suðvestan við Vatnajökul, allt frá Vestmannaeyjum og Vík og yfir Kirkjubæjarklaustur og Öræfasveit í austri. Í fyrstu öskusýnum hefur ekki greinst mikið af efnum, þar með talin flúor, en askan er glerkennd og getur haft særandi áhrif á slímhimnur í öndunarfærum, meltingarfærum og augum skepna. Mikilvægt er að forða skepnum undan öskufalli og hýsa þær eða flytja annað ef mögulegt er. Tryggja þarf skepnum á útigangi hreint drykkjarvatn og gefa þeim gott fóður vel og oft.

22.05.2011
Eldgos í Grímsvötnum - staðan klukkan 10:40
Ítrekun frá Samhæfingastöðinni.

Að gefnu tilefni er ítrekað að mikið öskufall er á svæðinu frá Mýrdalssandi og austur fyrir Freysnes í Öræfum.  Þjóðvegur 1, um Skeiðarársand, er lokaður frá Kirkjubæjarklaustri  að Freysnesi.  Ekkert ferðafæri er á svæðinu þar sem öskufallið er mest og ekkert skyggni er til gosstöðvanna.  Þeim sem ekki eiga brýnt erindi á svæðið er bent á að vera ekki á ferðinni.

Ekki er talin ástæða til að rýma svæðið en íbúar og þeir ferðamenn sem þegar eru á svæðinu hvattir til að halda sig innadyra og vera ekki á ferðinni að nauðsynjalausu.  Þeir sem þurfa að vera úti eru hvattir til að nota rykgrímur og hlífðargleraugu. 

Búið er að opna fjöldahjálparstöðvar í félagsheimilinu á Klaustri og Hofgarði fyrir þá sem treysta sér til að fara á þá staði.  Íbúar á svæðinu eru hvattir til að hafa samband við nágranna sína og veita hver öðrum stuðning.  Búið er að virkja hjálparsíma RKÍ 1717.

Verið er að vinna í að koma rykgrímum og hlífðargleraugum til þeirra sem eru á svæðinu en það gengur hægt vegna aðstæðna á vettvangi.

22.05.2011
Eldgos í Grímsvötnum - staðan klukkan 08:00

Eldgosið sem hófst í Grímsvötnum í gærkvöldi virðist halda áfram af töluverðum krafti.

Mikið öskufall er á svæðinu frá Mýrdalssandi og austur fyrir Freysnes í Öræfum.  Íbúar og ferðamenn á svæðinu eru hvattir til að halda sig innadyra og vera ekki á ferðinni á nauðsynjalausu.  Þeir sem þurfa að vera úti eru hvattir til að nota rykgrímur og hlífðargleraugu. 

Þjóðvegur 1, um Skeiðarársand, er lokaður frá Kirkjubæjarklaustri  að Freysnesi. 

Vísindamenn vinna að úrvinnslu gagna frá flugi í gærkvöldi og sýnatöku í nótt. 

Keflavíkurflugvelli verður lokað kl.08:30. Sú lokun er byggð á spá frá bresku veðustofunni (London volcanic ash advisory centre)

21.05.2011
Vegurinn um Skeiðarársand lokaður
Vegna eldgoss í Grímsvötnum hefur veginum yfir Skeiðarársand verið lokað og er hann vaktaður af lögreglu. Gosmökkurinn er talin vera í 40.000 feta hæð og hefur orðið vart við öskufall á Kirkjubæjarklaustri og fleiri stöðum á Suðurlandi. Askan er mjög fín og berst hún til suðausturs. Íbúuum á svæðinu er bent á að halda sig innan dyra og kynna sér bækling um öskufall sem hægt er að nálgast á heimasíðu almannavarnadeildarinnar. Bændum er ráðlagt að huga að búsmala allt vestan frá Síðu og austur fyrir Reynivelli

21.05.2011
Dökkur gosmökkur frá Grímsvötnum
Dökkur gosmökkur frá Grímsvötnum sést frá Skaftafelli, Vík og víðar á Suðurlandi. Síðast gaus í Grímsvötnum í Vatnajökli árið 2004. Í kvöld verður flogið með vísindamenn yfir svæðið og aðstæður kannaðar

21.05.2011
Hugsanlega eldgos að hefjast í Grímsvötnum
Nú á sjöunda tímanum í kvöld komu fram merki á jarðskjálftamælum um að eldgos gæti verið að hefjast eða er hafið í Grímsvötnum í Vatnajökli.
Samhæfingarstöðin í Skógarhlíð hefur verið vikjuð vegna þessa. Frekari upplýsingar verða gefnar um  leið og þær berast.


Skúlagata 21 | 101 Reykjavík | S:444 2500 | Fax: 562 2665 |
Netfang:almannavarnir[hja]rls.is