Áhættuskoðun   

Áhættuskoðun almannavarna 2011.

Almannavarnir hafa þurft að bregðast við ógnum af ýmsum toga síðustu áratugi eða allt frá stofnun þeirra í byrjun árs 1963. Til að byrja með voru það svo til einungis hernaðar- og kjarnorkuógnir, en síðan bættust við fleiri ógnir og frá 1967 hafa það aðallega verið ógnir frá náttúrunni. Eftir því sem samfélagið hefur orðið flóknara hafa sífellt fleiri þættir bæst við og umfang verkefnanna orðið víðtækara.

Í áhættuskoðun almannavarna er leitast við að skilgreina hættur, sem almannavarnir geta þurft að takast á við í framtíðinni. Þessar hættur eru af ýmsum stærðum, gerðum og uppruna, með mismunandi líkur, tíðni og alvarleika

Hafist var handa við undirbúning áhættuskoðunarverkefnisins almannavarna í lok ársins 2007 með því að skilgreina verkefnið, móta aðferðafræðina og leggja helstu áherslur. Ákveðið var að miða verkefnið við lögregluumdæmin 15.

Áður en verklagið var fullklárað var ákeðið að  forkanna það og bera það undir almannavarnanefndir í tveimur umdæmum. Forkannanir henta vel til að meta og prófa verklagið og fá tillögur um frekari uppbyggingu og endurbætt verklag. Þau tvö embætti sem voru valin til forkönnunar var annars vegar Akranes, sem er lítið og þéttbýlt umdæmi þar sem iðnaður, útgerð og þjónusta eru aðalatvinnuvegir og hins vegar Hvolsvöllur sem er stórt, dreifbýlt landbúnaðarumdæmi með fleiri náttúruvár en almennt gerist, auk þess sem mikill fjöldi ferðamanna sækir héraðið heim. Ástæðan fyrir valinu á þessum umdæmum var að kanna hvort uppsett verklag og aðferðafræði hentaði í tveimur ólíkum umdæmum. Starfsmenn almannavarnadeildarinnar, Guðrún Jóhannesdóttir umhverfisfræðingur og Ágúst Gunnar Gylfason, landfræðingur heimsóttu öll lögregluumdæmin og kynntu verkefnið í 22 almannavarnanefndum. Farið var yfir gátlista með helstu áhættum í umdæmunum með heimamönnum, sem skoðuðu og mátu hvort ástæða væri til aðgerða og hvernig ætti að forgangsraða verkefnum í almannavörnum. Síðan unnu verkefnahópar áfram í umdæmunum að verkefninu og sendu  fyrstu drög til almannavarnadeildarinnar, sem hélt utan um verkefnið og aðstoðaði við uppsetningu og öflun efnis. 

Veturinn 2009 -2010 var farið yfir drögin að áhættuskoðuninni  í öllum lögregluumdæmunum með verkefnahópunum. Guðrún Jóhannesdóttir, Víðir Reynisson og Rögnvaldur Ólafsson heimsóttu lögregluumdæmin og almannavarnanefndirnar og fóru yfir ný lög um almannavarnir og áhættuskoðunina. Þar var farið yfir þær skyldur sem sveitarfélögin höfðu samkvæmt lögunum og hvernig áhættuskoðunarverkefnið tengdist þeim skyldum sem almannavarnanefndirnar eiga að gera hvað varðar hættumat, viðbragðsáætlanir og áfallaþol. Guðrún Jóhannesdóttir annaðist ritstjórn og umsjón áhættuskoðunarinnar.

Umdæmin skiluðu áhættuskoðun umdæmanna inn til almannavarnadeildarinnar frá lok árs 2009 til haustsins 2011. Samantekt var gerð um helstu niðurstöður áhættuskoðunar almannavarna, sem má nálgast hér. 

Í kjölfar áhættuskoðunar almannavarna hafa margar almannavarnanefndir farið þess á leit við almannavarnadeild ríkislögreglustjóra að hún vinni með umdæmunum að mótvægisaðgerðum og viðbragðsáætlunum vegna aðkallandi verkefna. Vinna er þegar hafin vegna atburða sem taldir eru geta haft í för með sér mikla eða gífurlega áhættu og settar voru í fyrsta forgang í áhættuskoðuninni. Þar má nefna hættumat vegna eldgosa á landinu, viðbragðsáætlun vegna gróðurelda, viðbragðsáætlanagerð og æfingar vegna hópslysa bæði í siglingum og í umferðinni.


Skúlagata 21 | 101 Reykjavík | S:444 2500 | Fax: 562 2665 |
Netfang:almannavarnir[hja]rls.is