ELDGOS Í EYJAFJALLAJÖKLI   
1.12.2010

Tjón utan trygginga í eldgosunum

Umtalsvert tjón, sem varð af völdum eldgosanna í Eyjafjallajökli og á Fimmvörðuhálsi, fellur utan Viðlagatryggingar og Bjargráðasjóðs. Auk íbúa urðu sveitarfélög, rekstraraðilar og ýmsar stofnanir fyrir verulegum kostnaði vegna ýmissa afleiðinga gossins. Þessir aðilar hafa farið fram á að tjón þeirra verði bætt að einhverju leyti. Ljóst er að ekki verður hægt að bæta allan þann kostnað.

Ríkisstjórnin hefur ákveðið að veita viðbótarfjárveitingu til verkefna í kjölfar eldgossins að fjárhæð 67 m. kr.
Ákveðið hefur verið að veita 17 m.kr. í lagfæringu bæjarhlaða og heimreiða á þeim hluta skaðasvæðisins sem verst varð úti. Þá færu 27 m. kr. til greiðslu kostnaðar við átaksverkefni á gossvæðinu þar sem einstaklingar voru ráðnir af atvinnuleysisskrá til ýmissa verkefna, 12 m. kr. verður varið til að mæta kostnaði við flóðavarnir og framlag til Veðurstofu Íslands er 11 m.kr. vegna sérfræðikostnaðar og kostnaðar við mat á hættu á eðjuflóðum, aurskriðum og framburði gosefna niður á láglendi.

Ekki verður bætt tjón sem varð á landbúnaðarvélum og tækjum, vinnu sem íbúar lögðu í þrif innanhúss vegna þráláts öskuryks eða skemmdum á útihúsgögnum og pöllum. Á næstunni verður tekin afstaða til hvort viðbótarframlag verði veitt til frekari verkefna sveitarfélaganna, tjóna rekstrar- og ferðaþjónustuaðila og tjóna vegna heimavirkjana, skólplagna og frárennslismála.
 
Ríkisstjórn Íslands veitti fyrr á árinu 800,7 m. kr. í ýmis verkefni vegna eldgosanna og með þessari samþykkt eru heildarframlög úr ríkissjóði á árinu 2010 orðin 867,7 m.kr.

Til baka

Skúlagata 21 | 101 Reykjavík | S:444 2500 | Fax: 562 2665 |
Netfang:almannavarnir[hja]rls.is