ELDGOS Í EYJAFJALLAJÖKLI   
21.4.2010

Fréttatilkynning 21. apríl 2010 kl. 11.30

Íbúafundir verða haldnir í dag á Goðalandi í Fljótshlíð kl. 14.00, í grunnskólanum á Hellu kl. 17.00 og í félagsheimilinu Hvoli á Hvolsvelli kl. 20.00.

 

Upplýsingafundir sérfræðinga voru haldnir í upplýsingamiðstöðvunum í Skógarhlíð og í Hvoli á Hvolsvelli í morgun.  Páll Einarsson og Sigurður R. Gíslason, frá Jarðvísindastofnun HÍ, og Guðrún Nína Petersen frá Veðurstofu Íslands voru á fundinum í Skógarhlíð.  Ármann Höskuldsson og Martin Hensch, frá Jarðvísindastofnun HÍ, voru á fundinum á Hvoli.

Á fundinum í Skógarhlíð kom fram að þeytigosið hefur minnkað.  Gosmökkur og öskumyndun hafa minnkað verulega.  Skjálftamælar og GPS mælingar á landsigi sýna þó að ekkert lát virðist vera á kvikustreyminu og því bendir ekkert til þess að kvikuvirknin í fjallinu sé að minnka.  Samsetning öskunnar er óbreytt en flúorinnihald hennar hefur aukist talsvert (800 mg/kg).  Ekkert bendir þó enn til þess að forða þurfi skepnum í hús strax.  Fylgst verður grannt áfram með flúorinnihaldinu.

Gosstrókurinn er mjög lágur og mælist ekki á ratsjá.  Ekki er gert ráð fyrir að aska nái upp að 20.000 fetum (6 – 7 km) á næstu dögum.  Öskufall verður áfram suður og suðaustur af jöklinum í dag en vindátt snýst svo í NA og mun öskufallið færast í suðvestur í kvöld.  Spáð er hægum vindi.  Það, ásamt lítilli öskumyndun, gerir að verkum að askan mun ekki falla langt frá gosstöðvunum.  Engar líkur eru á öskufalli suðvestanlands.

 

Veðurstofan spáir því að öskufallið verði mjög nálægt gosstöðvunum næstu fjóra daga.

 

Upplýsingamiðstöðvar fyrir fjölmiðla í Skógarhlíð og á Hvoli verða áfram opnar og er opið þar frá kl. 7.00 til 19.00.   Upplýsingafundir verða áfram daglega kl. 8.00.

Símanúmer fyrir erlenda fjölmiðla eru 570 2633/ -2634.

Nýr bæklingur, Hætta á heilsutjóni vegna gosösku, er að koma út og verður að finna á heimasíðu Almannavarna, www.almannavarnir.is, síðar í dag.   Að útgáfu bæklingsins standa Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, Landlæknisembættið, Landspítali, háskólasjúkrahús, og Rauði kross Íslands.  Upplýsingabæklingur um viðbrögð við öskufalli kom út í gær og er að finna á heimasíðu Almannavarna. Öllum er velkomið að dreifa bæklingunum. 

 

 

Fjölmiðlateymi Samhæfingarstöðvar Almannavarna

 

 

Til baka

Skúlagata 21 | 101 Reykjavík | S:444 2500 | Fax: 562 2665 |
Netfang:almannavarnir[hja]rls.is