Jökulhlaup   

Jökulhlaup stafa ýmist af eldgosum eða jarðhita undir jökli. Stæsta náttúruváin vegna jökulhlaupa hér á landi er vegna eldgoss í Kötlu í Mýrdalsjökli. Eldgos í Kötlu hafa að meðaltali verið tvö á hverri öld og bræða þau jafnan mikinn ís. Talið er að um 20 jökulhlaup hafi orðið við eldgos í Kötlu á sögulegum tíma og hafa flest þeirra runnið niður Mýrdalssand en a.m.k. 2 hafi runnið niður Sólheimasand. Rannsóknir hafa leitt í ljós að jökulhlaup hafa runnið á forsögulegum tíma frá Emstrujökli niður Markarfljótsaura. Fyrsta viðbragðsáætlunin vegna eldgoss Kötlu og jökulhlaups austur af jöklinum var unnin árið 1973. Almannavarnir létu gera hættumat vegna eldgosa og hlaupa frá vestanverðum Mýrdalsjökli, sem kom út árið 2005 og í kjölfarið var unnin viðbragðsáætlun vegna eldgoss í Kötlu og jökulhlaupa vestur af jöklinum. Þá hefur viðbragðsáætlanir austur og suður af jöklinum verið uppfærðar. Almannavarnir hafa útbúið bæklinga á fimm tungumálum og upplýsingaskilti fyrir ferðamenn um hættur sem fylgja jökulhlaupum og viðbrögð við þeim.

Í Vatnajökli verða að meðaltali 10 eldgos á öld. Árið 1996 varð eldgos í Gjálp í Vatnajökli og við það bráðnuðu um 3 km³ af ís. Jökulhlaup fylgdi í kjölfarið og stórir ísjakar og vatnsflaumurinn skemmdu brýr, vegi og rafmagnslínur á leið sinni til sjávar. Jökulhlaup hafa einnig orðið við það að brestur verður í jökulstífluðum vötnum. Algengustu upptök jökulhlaupa eru frá Grímsvötnum og Grænalóni.

Vatnamælingar hafa þróað viðvörunarkerfi vegna flóða sem eiga upptök í eldstöðvum og jarðhitakerfum undir jökli. Þegar hlutfall jarðhitavatns í jökulvatni hækkar, eykst leiðni. Ef leiðni eða vatnshæð fara yfir fyrirfram ákveðin mörk hringir mælirinn í síma Neyðarlínunnar. Neyðarlínan sér um að kalla út vatnamælingamann sem metur ástandið.


Skúlagata 21 | 101 Reykjavík | S:444 2500 | Fax: 562 2665 |
Netfang:almannavarnir[hja]rls.is