Almannavarnastig   

Viðbragðsaðilar hafa komið sér saman um 3 háskastig almannavarna sem taka til allra neyðaraðgerða. Almannavarnastig eru flokkuð eftir alvarleika, umfangi viðbúnaðar og þörf á forgangshraða viðbragðsaðila.


Stig alvarleika eru:

1. Óvissustig

2. Hættustig

3. Neyðarstig


Skýringarmynd um stigakerfi almannavarna


Óvissustig:
(Uncertainty Phase) 


Óvissustig einkennist af atburðarás sem er hafin og ætla má að geti leitt til þess að öryggi fólks og/eða byggðar sé stefnt í hættu. Á þessu stigi hefst samráð milli almannavarna og þeirra stofnana sem málið varðar. Athuganir, rannsóknir, vöktun og mat er aukið. Atburðurinn er skilgreindur og hættumat framkvæmt reglulega til að meta stöðuna hverju sinni.

Dæmi:
Um óvissustig er að ræða:
i.  Þegar afla þarf upplýsinga um menn sem óvissa ríkir um.

ii. Þegar skip, loftfar eða menn hafa ekki komið fram á ákvörðunarstað eða ekkert heyrst frá þeim í tiltekinn tíma.

iii. Þar sem óvissa ríkir um öryggi skips eða loftfars og þeirra sem í því eru.

iv. Þegar grunur vaknar um að eitthvað sé að gerast af náttúru- eða mannavöldum sem á síðari stigum gæti leitt til þess að heilsu og öryggi fólks, umhverfis eða byggðar sé ógnað
.

v. Þegar sóttvarnaryfirvöld meta þörf á að hefja undirbúning að viðbúnaði vegna farsótta samkvæmt ráðleggingum  Alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar (WHO).

Hættustig:
(Alert Phase)

Ef hættumat leiðir í ljós að hætta fer vaxandi verður að grípa til tafarlausra ráðstafana til að tryggja sem best öryggi þeirra sem á svæðinu búa/dvelja. Slíkt er gert með því að efla viðbúnað neyðar- og öryggisþjónustunnar á viðkomandi svæði, ásamt því að grípa til fyrirbyggjandi aðgerða s.s. rýmingar, brottflutnings eða lokunar svæða. Einnig eru leiðbeiningar og viðvaranir einkennandi fyrir þetta stig.

Dæmi:
Um hættustig er að ræða:
i.   Þegar hefja þarf eftirgrennslan eftir mönnum sem óttast er um.

ii. Þegar tilraunir til að ná sambandi við skip, loftfar eða menn hafa ekki borið árangur.

iii. Þegar upplýsingar hafa borist sem gefa til kynna að sjóhæfni skips sé takmörkuð, flughæfni loftfars skert og menn í vanda staddir, þó ekki svo alvarlegar að líkur séu á neyðarástandi.

iv. Ef heilsu og öryggi manna, umhverfis eða byggðar er ógnað af náttúru- eða mannavöldum þó ekki svo alvarlegar að um neyðarástand sé að ræða.
 
v. Ef auka þarf viðbúnað og sóttvarnarráðstafanir vegna yfirvofandi farsóttar
.


Neyðarstig:
(Emergency Phase)

Neyðarstig einkennist af atburði sem valdið hefur slysum á fólki og/eða tjóni á mannvirkjum. Verkefni á þessu stigi einkennast af tafarlausum aðgerðum til lífsbjargandi aðstoðar og viðleitni til að afstýra fleiri slysum og varna frekara tjóni.

Dæmi:
Um neyðarstig er að ræða:
i.   Þegar viðhafa þarf tafarlaus viðbrögð vegna manna sem óttast er um.

ii. Þegar ítrekaðar tilraunir til að hafa samband við skip, loftfar eða menn hafa reynst árangurslausar og óttast er að viðkomandi sé í neyð.

iii. Þegar staðfestar upplýsingar hafa borist um að skip, loftfar eða menn séu í neyð eða yfirvofandi hættu og þarfnist tafarlausrar aðstoðar.

iv. Þegar slys eða hamfarir hafa orðið eða þegar heilbrigðisöryggi manna er ógnað svo sem vegna farsótta.

Aðgerðir geta hafist á óvissustigi (t.d. eldgos), hættustigi eða neyðarstigi (t.d. slys og bráðamengun).

Skýringarmyndin hér að ofan sýnir á heildstæðan hátt samsetningu stigakerfis almannavarna þar sem alvarleiki útkalls er flokkaður í óvissu, hættu, neyð. Umfang í ljósi alvarleika er flokkað í grænt, gult, rautt, svart og þörf á forgangi við boðun flokkuð eftir alvarleika útkalls.


Skúlagata 21 | 101 Reykjavík | S:444 2500 | Fax: 562 2665 |
Netfang:almannavarnir[hja]rls.is