Vettvangsstjórnun   

 

Stjórn Neyðaraðgerða  - Kennslurit í vettvangsstjórn útgefandi Ríkislögreglustjórinn almannavarnadeild 2010
 
Vettvangsstjóri (VS) fer með heildarstjórn og samhæfingu á vettvangi.  Einungis einn vettvangsstjóri stjórnar vettvangi á hverjum tíma, Fleiri geta verið í vettvangsstjórn eða aðstoðarvettvangsstjórar.  Þannig er hægt að skipa vettvangsstjórn sem tekur mið af aðstæðum hverju sinni.

Vettvangsstjóri er æðsti stjórnandi á vettvangi.  Undir hans samhæfingarstjórn starfa ýmsir fagstjórnendur, t.d. stjórna læknar meðferð sjúkra og slökkvilið slökkvistarfi. Vettvangsstjóri er þannig sérlegur fulltrúi lögreglustjóra eða ríkislögreglustjóra á áfallssvæði.  Sá sem tekur að sér eða er skipaður vettvangsstjóri verður að hafa fullan skilning á því að hann er ekki lengur fulltrúi sinnar starfseiningar, hvort sem það er lögregla eða önnur starfseining. Hann er nú fulltrúi allra starfseininga sem starfa á vettvangi og tryggir samhæfðar aðgerðir á þann máta, sem þolendum áfallsins er fyrir bestu. 

Lögð er áhersla á að stjórnendur starfseininga á vettvangi, t.d. varðstjóri lögreglunnar, getur ekki kallað sig vettvangsstjóra ef hann er eingöngu að stjórna og samhæfa aðgerðir lögreglunnar.  Sama á við um stjórnanda slökkviliðs.  Hann getur ekki kallað sig vettvangsstjóra slökkviliðs ef hann sinnir bara stjórnun slökkvistarfs.  Með öðrum orðum, ,,vettvangsstjóri lögreglunnar”, ,,vettvangsstjóri slökkviliðs”, ,,vettvangsstjóri björgunarsveita”, o.s.frv., eru ekki skilgreindir titlar.  Slíkir titlar eru misnotkun á orðinu vettvangsstjóri og valda misskilningi á vettvangi.  Einungis þeir sem eru að huga að vettvangsaðgerðunum í heild (samhæfðum vinnubrögðum slökkviliðs, lögreglu, björgunarsveita og annarra á vettvangi) geta borið titilinn vettvangsstjóri, eða verið hluti af vettvangsstjórn.

Hlutverk vettvangsstjóra er að samræma og stjórna þeirri starfsemi sem fram fer á vettvangi með það að markmiði að:
1. Tryggja öryggi þolenda, viðbragðsaðila og almennings.
2. Finna og bjarga öllum þolendum á sem stystum tíma.
3. Veita fyrstu lífsbjargandi aðstoð og undirbúa fyrir flutning.
4. Flytja þolendur af vettvangi:
- særða á sjúkrahús
- óslasaða í sjúkrahús/fjöldahjálparstöð/heim
- látna í líkhús eða tryggja vernd þeirra á slysstað.
5.  Tryggja skipulögð aðgerðalok og afhendingu vettvangs til rannsóknaraðila.
Þar að auki eru sett markmið háð eðli slyss eða atburðar á hverjum tíma.

Viðbragðsaðilar, sem eru vanir að fást við minniháttar slys og auk þess vanir að vinna saman, hafa gert grein sér fyrir því að oft er ekki þörf á vettvangsstjóra þar sem vettvangsvinna gengur samkvæmt viðtekinni venju.  Hins vegar ef þeir, sem eru á vettvangi, eru ekki vanir að vinna saman eða að áfallið krefst viðbragða, sem eru utan þess sem hægt er að flokka undir viðtekna venju, skiptir það sköpum að vettvangsstjóri sé afgerandi stjórnandi heildaraðgerða, hafi yfirsýn yfir framkvæmdina og  tryggi að vinnan gangi hnökralítið fyrir sig.

Vettvangsstjóri er tenging vettvangs við aðgerðastjórn.  Aðgerðastjórn (AS) sér ekki slysið með eigin augum og verður að treysta  upplýsingum frá vettvangsstjóra  sem eru sendar áfram til samhæfingarstöðvar. Það skiptir öllu máli að vettvangsstjóri gefi greinargóða lýsingu á ástandi á vettvangi og biðji um það sem hann þarf á að halda til að tryggja réttu aðstoðina.  Vettvangsstjóri og aðgerðastjórn bera sameiginlega ábyrgð á að tryggja að fjarskiptasamband á milli þeirra komist á í upphafi aðgerða og haldist þar til aðgerðum er lokið.  Ef ekki næst beint samband vegna lélegra skilyrða verður að skipuleggja samskipti í gegnum boðaðila sem bera á milli, eða með uppsetningu færanlegs endurvarpa.   

Þegar hópslys eða önnur stór áföll verða einkennast fyrstu mínúturnar eða fyrsta klukkustundin oft af ringulreið.  Eitt fyrsta verkefni vettvangsstjóra er að ná heildarsýn yfir ástandið á vettvangi.  Gefa fyrirmæli, sem miða að því að koma skipulagi og reglu á hjálparstarfið. Vettvangsstjóri skal hafa í huga að í flestum tilfellum mun hann fá á vettvang ólíkar viðbragðseiningar, sem hafa litla eða enga reynslu af því að vinna saman.

Vettvangsstjóri styðst við SÁBF verkþáttaskipuritið þegar hann skipuleggur störf á vettvangi.  Á skipuritinu er greint frá öllum megin verkþáttum sem sinna þarf á vettvangi þegar slys verður á fólki.  Til þess að aðgerðirnar gangi hratt og vel þurfa allir sem vinna á vettvangi að hafa þekkingu á verkþáttaskipuritinu.   Hlutverk vettvangsstjóra er að raða þeim mannafla, sem hann hefur yfir að ráða, á þá verkþætti sem hann telur nauðsynlegt að virkja hverju sinni. Vettvangsstjóri verður ávallt að vera meðvitaður um að nauðsynlegt getur verið að bæta við verkþáttum eftir umfangi og eðli aðgerða.  Vettvangsstjóri skal í öllum meginatriðum fylgja þeim reglum og leiðbeiningum sem gilda um beitingu verkþáttaskipuritsins sem lýst er í kennsluritinu.

Hin eiginlegu störf vettvangsstjóra og vettvangsstjórnar eru ávallt háð umfangi og eðli aðgerðarinnar, bæði í tíma og rúmi.  Aðgerðir, sem taka stuttan tíma í framkvæmd eða þurfa takmarkaðan liðsafla á vettvangi, kalla á umfangsminni stjórnun en þær aðgerðir sem eru umfangsmeiri og þyngri í vöfum.  Fjölmennar eða umfangsmiklar aðgerðir kalla á fólk í verkefni sem ekki er þörf á að sinna í minni slysum, t.d. að eftirlit sé með því hvort fyrirmælum sé framfylgt, fleiri millistjórnendur, sérstakan aðbúnað fyrir hjálparlið og fleira.  Það liggur því í hlutarins eðli að stjórnunarþáttur umfangsmikilla aðgerða verður ávallt viðameiri en í smærri slysum eða þar sem það tekur stuttan tíma að koma fólki til hjálpar. Það hve vettvangsstjóri grípur mikið inn í framkvæmdirnar sjálfar er ávallt háð eðli og umfangi slyssins/atburðarins og því hvernig hjálparstörf ganga hverju sinni.

Þegar um viðamiklar neyðaraðgerðir er að ræða getur verið að fleiri en ein vettvangsstjórn sé virkjuð. Þannig getur vettvangsstjóri lent í því að “keppa” við aðra vettvangsstjóra um bjargir. Í slíkum tilvikum er það hlutverk aðgerðarstjórnar að samræma aðgerðir og bjargir á milli vettvanga.

Vettvangsstjóri skal ekki gegna öðrum störfum á meðan hann sinnir vettvangsstjórn.


Skipun vettvangsstjóra
Þegar starfað er  samkvæmt skipulagi almannavarna fer lögreglustjóri með stjórn aðgerða og það er hlutverk hans að tilnefna vettvangsstjóra.  Þar sem leit og björgun almennt fellur samkvæmt lögreglulögum einnig undir stjórn lögreglustjóra skiptir ekki máli hvort áfallið sé skilgreint sem almannavarnaástand eða flokkast sem minni háttar slys.  Sami aðili fer með stjórn aðgerðanna.  Séu almannavarnir í héraði óstarfhæfar vegna áfallsins fellur það í hlut ríkislögreglustjóra að tilnefna vettvangsstjóra. Æskilegt er að sá sem skipaður er vettvangsstjóri hafi lokið námskeiði í vettvangsstjórn.

Þegar áfall verður skyndilega og skipa þarf vettvangsstjóra samstundis er það gert af æðsta vakthafandi yfirmanni lögreglu í því lögregluumdæmi sem áfallið varð í.  Viðkomandi yfirmaður lögreglu sér jafnframt til þess að haft sé samband við lögreglustjóra og honum tilkynnt um tilnefninguna.  Ef  lögreglustjóri er fjarverandi skal hafa samband við staðgengil hans eða fulltrúa lögreglustjóra í viðkomandi almannavarnanefnd, sem er ýmist löglærður fulltrúi eða yfirlögregluþjónn.  Lögreglustjóri getur breytt skipun vettvangsstjóra ef hann telur slíkt nauðsynlegt.

Líklegt er að fyrstu boð, upplýsingar um atburðinn og aðstoð vettvangsstjóra verði frá lögreglustöð eða jafnvel Neyðarlínu.  Á síðari stigum er sett upp aðgerðarstjórn/av-nefnd, sem tekur við stjórnun aðgerða.  Lögð er áhersla á að vettvangsstjóri geri sér grein fyrir því sem fyrst hvort hann telur sig þurfa aðstoð frá aðgerðastjórn og láti kalla hana saman sem fyrst.


Boðun vettvangsstjóra
Slys eru að öllu jöfnu tilkynnt til Neyðarlínunnar sem í framhaldinu hefur  samband við lögreglu í umdæminu, sem eftir það ber ábyrgð á viðbrögðum.  Í sumum tilfellum lætur Neyðarlínan fleiri aðila vita af slysinu, t.d. vakthafandi lækni eða bakvakt almannavarnadeildar.

Lögreglan sendir lögregluþjón á vettvang.  Hann er vettvangsstjóri þar til annað er ákveðið.  Ef aðrir koma að slysinu fyrst skipa þeir sér vettvangsstjóra.  Þegar lögreglumaður kemur á staðinn er ákveðið hvort hann tekur við eða hvort sá, sem fyrir er, gegnir stöðunni áfram. Það er afar mikilvægt að sá, sem gegnir stöðu vettvangsstjóra, geri sér grein fyrir ábyrgð sinni og skyldum en ekki eingöngu verkefnum sem falla undir þá starfsstétt sem viðkomandi er í.
 
Breytilegt er eftir lögregluumdæmum hvort lögreglan er með stöðuga vakt á lögreglustöð eða sinnir bakvaktarskyldu hluta sólarhringsins. Ef lögregla er á vakt á lögreglustöð og getur haldið áfram að vinna að aðgerðinni á meðan aðrir lögreglumenn fara á vettvang, hefst aðgerðastjórnunin þar. 

Þegar vettvangsstjóri hefur verið tilnefndur skal upplýsa hann um eftirfarandi:

    1. Hvað hefur gerst og hvernig ástandið er á vettvangi.
    2. Hvernig hann kemst á vettvang. Flutningur vettvangsstjóra á vettvang er   ávallt forgangsmál.
    3. Hvaða viðbúnaður er þegar viðhafður á vettvangi, t.d. hvaða hjálparlið er við störf, eða hefur verið boðað, hvaða viðbúnaður er tiltækur vegna vegalokana og umferðarstjórnar.
    4. Hvaða viðbúnaður er viðhafður varðandi aðgerðastjórn og/eða av-nefnd.
    5. Hvaða fjarskipta- og boðskiptaleiðir eru í notkun eða hafa verið ákveðnar.

Einnig skal tryggja honum aðgang að búnaði vettvangsstjóra eins fljótt og hægt er.  Í vissum tilfellum er það vettvangsstjórans að afla ofantaldra upplýsinga og sækja búnaðinn sjálfur.

Starfssvæði vettvangsstjóra
Starfssvæði vettvangsstjóra nefnist vettvangur. Oftast afmarkast hann af ytri lokun.

Miðað er við að á hverjum vettvangi séu sett upp þau starfssvæði, sem þarf til þess að framkvæmdir gangi vel og snurðulaust fyrir sig.  Ef álag á vettvangi er orðið það mikið eða vettvangurinn svo stór (víðfeðmur) að nauðsynlegt er að setja upp fleiri starfssvæði af sömu tegund (t.d. fleiri en eitt söfnunarsvæði slasaðra), er rétt að vettvangsstjóri hugi að því í tíma að leggja til við aðgerðarstjórn að hún skipi fleiri vettvangsstjóra og fjölgi vettvöngum.


Skipan vettvangsstjórnar
Þegar umfang stjórnunar á vettvangi er orðið meira en svo að vettvangsstjóri ráði einn við að huga að áætlunargerð, útvegun bjarga og samskiptum við stjórnendur á vettvangi og annað sem felst í heildarstjórnun, skal hann velja sér aðstoðarmenn (millistjórnendur) til þess að fara með stjórn einnar eða fleiri af burðarstoðum skipulagsins, þ.e. Áætlun, Bjargir eða Framkvæmd.  Minnt er á að skipuritið segir til um verkþætti en ekki fólk og því getur einn maður tekið að sér fleiri en einn verkþátt. Vettvangsstjórn er þá skipuð vettvangsstjóra ásamt þeim mönnum sem hann tilnefnir til þess að stýra og samræma ákveðna verkþætti. Þessir millistjórnendur skipa sér síðan aðstoðarlið eftir þörfum.

Áætlun:  Gert er ráð fyrir að sá/þeir sem taka að sér Áætlun séu í stjórnstöð á vettvangi og vinni fyrir vettvangsstjórann við að halda utan um, afla og dreifa nauðsynlegum upplýsingum.  Áætlun hugsar um næstu skref aðgerðanna með vettvangsstjóranum og tryggir að áætlun um það sé fyrir hendi.  Í kafla 5.2.2 er farið yfir þá þætti sem Áætlun skal leggja áherslu á.  Æskilegt er að sá sem tekur að sér Áætlun hafi fengið til þess sérstaka þjálfun.

Bjargir:  Gert er ráð fyrir að sá/þeir sem taka að sér Bjargir séu einnig í stjórnstöð á vettvangi, vinni fyrir vettvangsstjórann við að tryggja aðföng sem nauðsynleg eru til aðgerðanna, sinni aðbúnaðarmálum gagnvart þeim og að nauðsynlegur fjarskiptabúnaður sé til staðar.  Í kafla 5.2.3 er farið yfir þá þætti sem Bjargir skulu leggja áherslu á.  Æskilegt er að sá sem tekur að sér Bjargir hafi fengið til þess sérstaka þjálfun.

Framkvæmd:  Gert er ráð fyrir að sá/þeir sem taka að sér Framkvæmd séu hreyfanlegir, vel merktir hlutverki sínu og augsýnilegur, sérstaklega fyrir verkþáttastjórana, þ.e. augu og eyru vettvangsstjórans á vettvangi.  Hann getur ýmist verið staðsettur í vettvangsstjórnstöðinni, t.d. vegna stöðufundar vettvangsstjórnar eða samráðs við vettvangsstjóra, verið á slysstað í beinum samskiptum við verkþáttastjóra eða fylgst með aðgerðunum til þess að fá heildaryfirsýn og kanna hvort allt er í þeim skorðum sem áætlað var.  Æskilegt er að sá sem tekur að sér Framkvæmd hafi fengið til þess sérstaka þjálfun.


Starfslið vettvangsstjórnar
Vettvangsstjórn fær til sín aðstoðarmenn eftir þörfum til þess að sinna ýmsum störfum í þágu vettvangsstjórnar. Fjöldi slíkra aðstoðarmanna ræðst fyrst og fremst af eðli og umfangi aðgerðanna.  Aðstoðarmenn þessir kallast starfslið og hafa ekki stjórnunarumboð heldur sinna ákveðnum verkefnum fyrir vettvangsstjórnina, svo sem skráningu, eftirliti, símsvörun o.fl.


Skipun varavettvangsstjóra
Ef fyrirséð er að um langtíma aðgerð er að ræða þarf að huga að skipun varavettvangsstjóra til þess að leysa vettvangsstjóra af.  Þetta þarf að gera tímanlega þannig að varavettvangsstjóri geti kynnt sér stöðu mála áður en hann tekur við stjórn aðgerða á vettvangi.  Góð regla er að skipa varavettvangsstjóra strax við upphaf aðgerða.  Þannig er tryggt að hann geti aðstoðað vettvangsstjóra við að leysa það álag sem gjarnan skapast við upphaf aðgerðarinnar, þ.e.a.s. meðan verið er að ná utan um atburðinn.  Með því kemst varavettvangsstjóri einnig vel inn í þá atburðarás sem í gangi er og það nýtist honum á seinni stigum aðgerða.  Þegar sýnt er að aðgerðin muni dragast á langinn getur verið gott að varavettvangsstjóri dragi sig í hlé og hvílist fram að vaktaskiptum.


Skúlagata 21 | 101 Reykjavík | S:444 2500 | Fax: 562 2665 |
Netfang:almannavarnir[hja]rls.is